Spegilmyndir á miðjunni

Vinstra megin á miðju íslenskra stjórnmála eru tveir flokkar, Samfylkingin og Píratar. Raunar finnst mörgum orðið erfitt að greina mikinn mun á þessum tveimur flokkum. Samkvæmt skoðanakönnunum er fylgi þeirra áþekkt og saman njóta þeir álíka mikils stuðnings og Sjálfstæðisflokkurinn.
Þegar stefnumál Samfylkingar og Pírata eru skoðuð kemur í ljós að ekki ber mikið á milli. Báðir flokkar leggja áherslu á að Alþingi afgreiði nýja stjórnarskrá byggða á tillögum stjórnlagaráðs frá 2012. Málefni hinsegin fólks eru hugleikin báðum flokkum.
Í sjávarútvegi vilja báðir flokkar tryggja að þjóðin eigi í raun þjóðarauðlindina í sjónum og tryggt verði að einungis verði veittur nýtingarréttur á henni til tiltekins tíma og aðeins gegn því að auðlindarentan, sem til verður vegna takmarkaðs aðgengis að aulindinni og rennur nú til handhafa veiðiheimilda, renni til þjóðarinnar.
Í umhverfis- og loftslagsmálum er samhljómur mikill þótt bersýnilegt sé af stefnuskrám flokkanna að þau mál eru meiri hjartans mál Pírata en Samfylkingarinnar. Að sama skapi eru áherslur flokkanna í orkumálum og varðandi nýtingu orkuauðlindarinnar ekki ósvipaðar.
Í heilbrigðis- og velferðarmálum vilja báðir úrbætur en Píratar vilja ganga lengra en Samfylkingin. Að sumu leyti má merkja mun milli framsetningar stefnumála sem getur skýrst af því að Samfylkingin hefur reynslu af ríkisstjórnarsamstarfi en Píratar hafa fram til þessa verið genetískur stjórnarandstöðuflokkur.
Samfylkingin vill láta þjóðina kjósa um áframhald aðildarviðræðna við ESB og Píratar leggja áherslu á að engin skref verði stigin varðandi aðild að ESB án þess að þjóðin láti í ljós vilja sinn og farið verði eftir þeim vilja. Ekkert ber því þar á milli.
Samfylking og Píratar eru nú í stjórnarandstöðu en gætu orðið saman í stjórnarmeirihluta eftir kosningar. Sú ríkisstjórn yrði annað hvort miðjustjórn eða vinstri stjórn vegna þess að báðir hafa flokkarnir lýst því yfir að hvorki komi til greina að starfa með Sjálfstæðisflokki né Miðflokki í ríkisstjórn.
Í vinstri stjórn sem þessir flokkar ætti aðild að yrðu Vinstri grænir og líklega Framsókn. Ólíklegt er að kosningaúrslit bjóði upp á að mynduð verði ríkisstjórn Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Flokks fólksins. Hugsanlegt er hins vegar að Sósíalistaflokkurinn gæti orðið eitt hjól undir vagni vinstri stjórnar, en þar sem Sósíalistar hafa með öllu hafnað málamiðlunum um sín stefnumál eru þeir ólíklegir þátttakendur í ríkisstjórnarsamstarfi.
Miðjustjórnarmynstur er hins vegar einungis eitt. Þá yrðu saman í ríkissstjórn Samfylking, Píratar, Viðreisn og Framsóknarflokkur. Slík ríkisstjórn yrði án efa undir forsæti Sigurðar Inga Jóhannssonar formanns Framsóknarflokksins. Skoðanakannanir benda til að miðjustjórn verði raunhæfur kostur eftir kosningar.
- Ólafur Arnarson