Sóttvarnalæknir gerir nýtt minnisblað og uppfærir ferðaráðleggingar vegna nýs afbrigðis

Sóttvarnalæknir ráðleggur nú íbúum á Íslandi frá því að ferðast til tiltekinna landa í Afríku að nauðsynjalausu. Þá mun hann um helgina, líklega í dag, afhenda heilbrigðisráðherra nýtt minnisblað um hertar aðgerðir á landamærunum vegna hraðrar útbreiðslu Ómíkrón afbrigðis kórónuveirunnar í Suður-Afríku og greiningar afbrigðisins í löndum utan Afríku í kjölfar ferðalaga. Greint var frá því í hádegisfréttum á RÚV.

Í tilkynningu á vef landlæknisembættisins segir að Ísland fylgi ferðatakmörkunum á ESB/Schengen-svæðis og er vakin athygli á því að mælt hefur verið með að flug frá ákveðnum löndum fái ekki að koma til Evrópu vegna útbreiðslu nýja afbrigðisins.

Löndin sem um ræðir eru: Botsvana, Esvatíní, Lesótó, Mósambík, Namibía, Suður Afríka og Zimbabwe

Fram kemur í tilkynningunni að mögulegt sé að fleiri lönd bætist á listann eftir því sem upplýsingar berast um frekari útbreiðslu.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Fleiri fréttir