Sósíalistar ætla að stofna eigin fjölmiðil og setja á fót „And-spillingarstofnun“

Sósíalistaflokkur Íslands ætlar að setja á fót sérstaka And-spillingarstofnun ef hann kemst til valda eftir kosningarnar á laugardag.

Katrín Baldursdóttir, oddviti Sósíalistaflokksins í Reykjavíkurkjördæmi Suður, segir í samtali við Stundina að flokkurinn sé bú­inn að reikna út hversu mikl­ar tekj­ur hann þarf til þess að standa við lof­orð sín.

Katrín vill hins vegar ekki segja hversu miklar tekjur um er að ræða, það væri „fá­rán­legt“.

Varðandi And-spillingarstofnunina þá verði kallað til fólk með þekkingu og vilja. Opinberri stofnun verði falið að kalla saman það fólk.

Þá ætlar Sósí­al­ista­flokk­urinn að byggja upp sinn eig­in fjöl­mið­il og leggja af núverandi styrkjakerfi. Þess í stað geti blaða­menn sótt um styrki til að fjalla um það sem flokkn­um finnst „þess virði“.

„Segjum að þú sért blaðamaður og þú mundir vilja fá styrk hjá okkur, þá verður þú að gefa upp til hvers styrkurinn er. Hvað þú ætlar að rannsaka og hvað ekki. Auðvitað er það ákveðið af einhverjum lýðræðislegum hópi sem er valinn lýðræðislega... Þá verður það bara metið. Nú er blaðamaðurinn að koma hingað og sækja um þennan styrk og þá er spurningin um það: Finnst okkur þetta þess virði eða ekki,“ sagði Katrín. Slíkur styrkur væri aldrei gefinn til blaðamanns sem „ætlar að fara boða hagsmuni þeirra ríku“.

Hér má sjá viðtalið við Katrínu.