Sonur konunnar sem lést skorar á Ís­lendinga að taka CO­VID-19 al­var­lega: „Þetta er mamma mín, hún barðist í heila viku“

24. mars 2020
10:01
Fréttir & pistlar

Eldri kona með undir­liggjandi sjúk­dóm lést í gær af völdum CO­VID-19. Hún er fyrsti Ís­lendingurinn sem látist hefur af völdum hinnar skæðu kóróna­veiru. Þetta kemur fram í Frétta­blaðinu sem kom út í morgun. Einnig er greint frá and­látinu á vef Land­læknis. Þar segir:

„Mánu­daginn 23. mars 2020 lést á smit­sjúk­dóma­deild Land­spítala lið­lega sjö­tug kona, sem glímt hafði við lang­varandi veikindi. And­látið varð í kjöl­far veikinda konunnar af völdum Co­vid-19-sjúk­dómsins. Land­spítali vottar fjöl­skyldu hennar sam­úð.“

Frétta­blaðið náði tali af Svan­dísi Svavars­dóttur heil­brigðis­ráð­herra sem vildi ekki tjá sig vegna þessara vatna­skila í bar­áttu Ís­lendinga við kóróna­veiruna og sjúk­dóminn CO­VID-19. Bætti ráð­herrann við að ekki væri við­eig­andi að hún tjáði sig fyrr en þessar upp­lýsingar kæmu opin­ber­lega fram.

Sonur konunnar tjáði sig um and­látið á Face­book. Þar tekur hann fram að venju­lega sé and­lát í fjöl­skyldum einka­mál. Þar segir hann að mikil­vægt sé að ís­lenska þjóðin taki CO­VID-19 al­var­lega. Hann segir:

„Sjálf­sagt er flestum að verða ljóst að litla landið okkar hefur þurft að þola sitt fyrsta dauðs­fall af völdum CO­VID-19 veirunnar, þó dauðs­fall í fjöl­skyldunni sé mikið einka­mál fyrir flesta þá langar mig að sem flest okkar læri eitt­hvað af þessu.“

Þá segir hann einnig:

„Þetta er mamma mín, hún barðist í heila viku fyrir lífi sínu smituð af Co­vid-19 veirunni, hún var í á­hættu­flokki eins og mjög margir aðrir. Þrír úr minni fjöl­skyldu höfðu tæki­færi til að kveðja hana fyrir enda­lokin. Tveir þeirra vegna þess að þeir eru smitaðir af veirunni og ein sem lagði sig í mikla smit­hættu, ég hefði alveg þegið að fá að horfa í augu hennar og segja bless en vegna að­stæðna var það ekki hægt. Í staðinn fæ ég að minnast hennar eins og ég sá hana síðast og fékk að kveðja hana í gegnum símann og ekka­sog.“

Þá vill hann koma þessum mikilvægu skilaboðum til þjóðarinnar:

„Það er alveg kominn tími til að þessi þjóð og þegnar hennar taki þessu al­var­lega og hætti að haga sér eins og hálf­vitar.“