Sonur Gunnars fékk ó­geð­felld skila­boð: Skila skömminni með því að birta bréfið

3. júlí 2020
10:29
Fréttir & pistlar

„Auð­vitað er þetta leiðin­legt; að vera ný­flutt aftur og lenda í ein­hverju svona,“ segir séra Gunnar Einar Stein­gríms­son, prestur í Lauf­ás­presta­kalli, í sam­tali við vef Frétta­blaðsins.

Syni Einars, hinum 19 ára Stein­grími Inga, bárust ó­geð­felld skila­boð í nafn­lausu bréfi sem kom inn um lúguna en þar var honum meðal annars sagt að fara úr bænum og drepa sig. Gunnar birti bréfið á Face­book-síðu sinni og segir hann mikil­vægt að svona ein­elti fái ekki að við­gangast. Þá vill hann skila skömminni með því að opna á um­ræðu um málið.

„Skömmin er ekki hans og ekki okkar. Við skilum henni því til baka með því að birta bréfið,“ hefur Frétta­blaðið eftir Gunnari. Gunnar segist sjálfur hafa orðið reiður en sonur hans, Stein­grímur, sagt að sá sem sendi bréfið hlyti að líða illa. „Hann lætur þetta ekki á sig fá og segir þetta fyrsta að­dáanda­bréfið sem hann hefur fengið.“

Í fréttinni kemur fram að Gunnar hafi flust til landsins frá Noregi í janúar á­samt tveimur yngri börnum sínum en Stein­grímur kom til landsins í mars­mánuði. Stein­grímur Ingi er mikill á­huga­maður um fót­bolta og æfir með liði Magna á Greni­vík. Gunnar segir að sá sem sendi bréfið verði ekki kærður en þó verði rætt við lög­regluna.

„Mín fyrsta hugsun var að birta þetta bréf og skila skömminni til baka. Þetta á ekki að við­gangast. Við viljum ekki benda á við­komandi heldur vonum við bara að hann eða hún fái hjálp.“

Hér má lesa fréttina í heild sinni.