Sonur Elliða hjólar í Sjálfstæðismenn: „Mér hreinlega svelgdist á morgunkaffinu“

„Mér hreinlega svelgdist á morgunkaffinu þegar ég rakst á þessa grein eftir son minn í Viðskiptablaðinu,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, á Facebook-síðu sinni.

„Hann er ekkert að skafa af gagnrýni sinni á okkur Sjálfstæðismenn og sjálfsagt margt til í þessu hjá honum,“ segir Elliði en sonur hans, Nökkvi Dan Elliðason, stærðfræðingur og framhaldsnemi við Yale University, skrifar um málefni unga fólks á Íslandi – einkum húsnæðismarkaðinn.

Nökkvi segist í grein sinni vera einstaklings- og frjálshyggjumaður en honum líði eins og veður og vindar hafi blásið alla stjórnmálaflokka í burtu frá honum.

„Ég og aðrir hægrimenn erum enn á sama stað en flokkurinn okkar hefur hörfað undan rétttrúnaðarveðrinu.“

Hann segir að undir forystu Sjálfstæðisflokksins hafi ungir kjósendur verið settir út í horn samfélagsins. „Við höfum verið hindruð frá þátttöku í eignamyndun. Hátt lóðaverð boxar okkur út. Við hreinlega getum ekki tekið þátt í leiknum sem heitir í dag þétting byggðar en er í raun ekkert annað en þétting eignamyndunar. Í stað þess að fleiri njóti ágóðans af góðæri verður gríðarlegur munur á eignamyndun kynslóða og töluvert erfiðara að komast inn á markaðinn,“ segir hann og skýtur áfram fast á Sjálfstæðisflokksins.

„Aðrir flokkar tala ekki fyrir þessu og því miður er rödd Sjálfstæðisflokksins orðin hjáróma. Algjört stefnuleysi og vangeta á skilgreindu sjálfi stendur Sjálfstæðisflokknum fyrir þrifum. Því kalla ég eftir naflaskoðun og baráttu fyrir okkur unga fólkið á vegum Sjálfstæðisflokksins.“