Sölvi vill selja áfengi í Hlíðarfjalli: Sóley segir hugmyndina alveg út í hött

Sölvi Antonsson, veitingamaður, vill að áfengissala verði heimiluð í Hlíðarfjalli til klukkan 20:30 á veturna. Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli er eitt það glæsilegasta og vinsælasta á landinu og sækja þúsundir landsmanna skíðasvæðið heim á ári hverju.

Óhætt er að segja að ekki séu allir á eitt sáttir við hugmynd Sölva en hann tók við veitingarekstri á skíðasvæðinu um áramótin undir merkjum fyrirtækisins Ghost Mountains ehf.

Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag en þar kemur fram að málið hafi verið til umræðu hjá bæjarráði Akureyrar að undanförnu. Hefur verið óskað eftir umsögnum og áliti frá lögreglu, slökkviliði og heilbrigðiseftirliti svo eitthvað sé nefnt.

„Að geta fengið sér aðeins í tána ætti að auka á upp­lif­un fólks sem kem­ur í fjallið,“ seg­ir Sölvi í viðtali við Morgunblaðið og segir að markmiðið sé að skapa góða stemningu í Hlíðarfjalli sem líkist því sem gerist á skíðasvæðum í Evrópu.

„Bjór­kolla með kröftugri kryddpylsu gef­ur líf­inu gildi. Sé áfengi eða bjór seld­ur í plast­glös­um í fjall­inu verða ekki dós­ir og flösk­ur út um allt ef fólk kem­ur með veig­arn­ar með sér á svæðið. En ég ít­reka líka að við mun­um ef til þess kem­ur að leyfi til áfeng­is­sölu fá­ist verða með arn­ar­augu á því að fólk sé ekki ölvað í skíðabrekk­un­um, með allri þeirri slysa­hættu sem því kann að fylgja,“ segir Sölvi við Morgunblaðið.

Sóley Björk Stefánsdóttir, áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna, er mótfallin því að áfengissala verði leyfð í fjallinu og segir að sala áfengis gangi gegn forvarnarstefnu Akureyrarbæjar.

„Satt að segja finnst mér þessi hug­mynd al­veg út í hött og andstaða mín er al­veg skýr,“ sagði Sól­ey við Morgunblaðið og óttast til dæmis að hætta geti skapast sé skíðafólk und­ir áhrif­um áfeng­is.