Sól­veig: „Ég viður­kenni að ég hef stundum grátið - megum ekki gleyma að við erum mennsk“

„Þetta eru svo sannar­lega skrítnir tímar. Að vera vinna uppá smit­sjúk­dóma­deild á þessum tíma fyllir mig miklu stolti og gleði að vissu leyti. Af því ég treysti mér til og vil gefa mig alla í að sinna þessum skjól­stæðinga­hóp, alveg eins og öðrum skjól­stæðingum. Það hlýtur að vera erfitt að vera í þeirra sporum þar sem við komum alltaf upp klædd eins og geim­farar inn til þeirra,“ þetta skrifar Sól­veig Gylfa­dóttir hjúkrunar­fræðingur á smit­sjúk­dóma­deild Land­spítalans á Face­book í dag.

Hún segist reyna eftir bestu getu að vera upp­lífgandi, gleðja, sýna sam­hygð og hlýju á­samt því að láta skjól­stæðinga sína vita að hún sé til staðar fyrir þá sama hvað.
„Ég elska vinnuna mína ó­lýsan­lega mikið, hún er gefandi, krefjandi, erfið á tímum og viður­kenni að ég hef stundum grátið, við megum ekki gleyma að við erum mennsk,“ segir hún jafn­framt.


Sólveig segist reyna eftir bestu getu að vera upplífgandi í vinnunni en það sé hins vegar krefjandi

Hún vinnur eins mikið og hún getur núna því hún veit að sam­fé­lagið þarf á heil­brigðis­starfs­fólki að halda um þessar mundir. Þess á milli hvílir hún sig og reynir að njóta með 11 mánaða gamalli dóttur sinni. „Ég er dug­leg að sleppa mér og gleyma mér í að dansa um gólf og syngja barna­lög með henni, hug­leiða og fara í göngu­túra með hundinn minn. Ég tók sjálf á­kvörðun um að hitta ekki vini né fjöl­skyldu á meðan þetta gengur yfir. Ég hitti jú maka minn, dóttur og stjúp­son en ekki for­eldra mína, aðra fjöl­skyldu­með­limi, né vini mína. Þar sem ég er í fram­línu get ég ekki verið að veikjast og tek ekki á­hættu þar sem ég er að sinna já­kvæðum co­vid19 sjúk­lingum að ef ég er smituð að ég fari að smita aðra,“ skrifar Sól­veig.

Hún segir að hjúkrun sé lífs­stíll. Hjúkrunar­fræðingar fórna ýmsu fyrir vinnuna. Þeir loka sig sjálfir frá fé­lags­lífi, koma til baka þegar á reyni og sam­fé­lagið þarf á þeim að halda. „Og ekki má gleyma að hjúkrunar­fræðingar eru samnings­lausir. Þessi mikil­væga stétt gerir allt fyrir sam­fé­lagið en ríkið getur ekki séð sóma sinn í að semja um mann­sæmandi laun fyrir á­byrgð, tryggð og þá ást­ríðu sem hjúkrunar­fræðingar leggja í störf sín. Eitt sem ég veit er að ef ekki verður samið til hins betra mun verða flótti úr stéttinni.“

Sólveig Gylfadóttir hjúkrunarfræðingur á smitsjúkdómadeild í vinnugallanum.

Hún segir starfs­fólk smit­sjúk­dóma­deildar vera því­líkar hetjur sem þurfa að­laga sig alls­konar breytingum þessa daganna. „Það er ó­trú­legt hvað allir eru til­búnir að leggja mikið á sig til að þetta gangi nú allt vel. Ég er svo ó­lýsan­lega stolt að vinna á þessari deild. Auð­vitað er enn mikil ó­vissa hvað verður og hversu margir veikjast al­var­lega og þurfa inn­lögn.“

Hún bendir á að samkvæmt alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er árið 2020 er til­einkað hjúkrunar­fræðingum og ljós­mæðrum. „Hver hefði trúað því að við fengjum svona mikil­vægt verk­efni að vinna. Við erum hér fyrir þig,“ skrifar hún að lokum.“