Sólveig býður sig fram til formennsku: Vill gera Eflingu að öflugu vopni

Sólveig Anna Jónsdóttir hefur ákveðið að bjóða sig aftur fram til formennsku hjá stéttarfélaginu Eflingu eftir að hafa sagt af sér eftirminnilega síðastliðið haust. Hún fer fyrir B-listanum, svokallaða Baráttulistanum, ásamt sex öðrum, fjórum sem eru nú sitjandi stjórnarmeðlimir félagisins.

Lesa má um baráttumál listans á vefsíðu þeirra Efling22.is.

„Við erum hópur Eflingarfélaga sem eigum það sameiginlegt að vilja umbylta félaginu okkar. Við viljum endurvekja íslenska verkalýðsbaráttu og sýna hvers við erum megnug þegar við stöndum saman," segir í lýsingu listans á vefsíðunni.

Um listann segir meðal annars: „Það sem sameinar okkur meira en nokkuð annað er trúin á að umbylta félaginu og gera Eflingu að öflugu vopni í kjarabaráttu láglaunafólks."