Sólveig Anna segir Viðskiptablaðið plata: Var ekki á Ítalíu með Halldóri, Þorvaldi og Vilhjálmi í Armani-galla

Viðskiptablaðið birti einstaka skemmtisögu undir liðnum Huginn & Muninn í dag þar sem segir frá Halldóri Benjamín Þorbergssyni og samstarfsfólki hans hjá Samtökum atvinnulífsins sem gerði sér glaðan dag um síðustu helgi og skellti sér til Napólí með Icelandair.

„Það var mikil stemning í vélinni á leiðinni út eins og alltaf þegar Íslendingar leggja land undir fót. Bekkurinn var þétt setinn. Í aftari hluta vélarinnar sat SA-fólkið en í fremri hlutanum voru þau Sólveig Anna Jónsdóttir, verkalýðsleiðtogi í Eflingu og Þorvaldur Gylfason, prófessor við Háskóla Íslands,“ segir í Viðskiptablaðinu.

„Sólveig Anna hefur líklega verið að kynna sér starfsemi Icelandair sem fjárfestingarkosts eftir þátttöku Gildis lífeyrissjóðs, eftirlaunasjóðs Eflingar-fólks, í hlutafjárútboðinu góða fyrir ári síðan. Þorvaldur hefur þurft að hafa sig allan við í mælingum á spillingavísitölunni í Napólí.“

Sagan er svo botnuð:

„Svona til þess að setja punktinn yfir i-ið þá var stjörnu-lögmaðurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson einnig í þessari ferð og spígsporaði um götur borgarinnar í Armani-heilgalla.“

Sólveig Anna segir á Facebook í kvöld að þarna sé Viðskiptablaðið að plata. „…segir mig ástunda eitthvað lúxus-líf í kapítalískum rannsóknar-tilgangi! Blaðið er svo ósvífið að sverta nöfn Hugins og Munins til að útbúa tækifæri fyrir peninga-pésa til að vera með nafnlaus leiðindi. Sem eru ekki einu sinni fyndin. Tremendously sad myndi einhver mögulega segja.“

Sólveig Anna segir að þegar hún hafi átt að vera á þessu „lúxus-sprelli á meginlandinu“ hafi hún verið í sveit. „…og hitti þar enga aðra en bernskuvini mína, Huginn og Muninn. Útí móa. Ég færði þeim grillaða steik, medium-rare, í þakklætisskyni fyrir fegurð þeirra og jarðneskar heimsóknir.“