Sólveig Anna: „Mér var ekki tilkynnt um þessa ógeðslegu aðgerð“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir fyrrverandi formann og varaformann Eflingar þær Agnieszku Ewu Wiolkowsku og Ólöfu Helgu Adolfsdóttur hafa skoðað tölvupósta sína og að hún hafi komist að málinu fyrir tilviljun.

Frá þessu greinir Sólveig Anna á Facebook-síðu sinni en hún segist jafnframt hafa gert grein fyrir málinu á fundi miðstjórnar ASÍ í gær.

Sólveig Anna segir að 12. janúar síðastliðinn hafi þær látið tengja tölvupósthólf hennar, sem hún hafði notað í störfum sínum sem formaður Eflingar, allt frá því að hún tók fyrst við því embætti seint í apríl 2018 allt þar til hún sagði af sér störfum sem formaður haustið 2021 við tölvupósthólf Agnieszku Ewu, starfandi formann félagsins.

„Ég komst að þessum brotum fyrir tilviljun. Atburðarásin er sú að Ólöf Helga talaði af sér á stjórnarfundi Eflingar fyrir skemmstu þar sem að hún vitnaði í tölvupóstsamskipti mín og Drífu Snædal,“ segir Sólveig Anna og heldur áfram: „Ég og félagar mínir spurðum Ólöfu Helgu hvernig á því stæði að hún vissi hvað okkur hefði farið á milli í tölvupósti en hún sagðist „ekkert þurfa að segja okkur það.“

Fyrir nákvæmlega viku síðan fann ég svo útprentaða pósta á meðal vinnugagna sem að sótt höfðu verið á skrifstofu Agnieszku Ewu, tölvupóstsamskipti sem að stóðu yfir frá 20 – 25. október 2020. Það tók mig hálfan sólarhring að horfast í augu við að eina útskýringin væri sú að Agnieszka hefði einfaldlega látið hleypa sér inn í pósthólf það sem ég notaði í störfum mínum sem formaður. Og það reyndist rétt,“

Sólveig Anna segir leikendur málsins fleiri en Agnieszku og Ólöfu og það sé niðurstaða álitsgerðar lögmanns að brotið hafi verið á rétti hennar á fjölbreyttan hátt.

„Á miðstjórnarfundinum í gær þar sem ég greindi frá málavöxtum og aðkomu Agnieszku Ewu og Ólafar Helgu voru m.a. viðstaddir Þórarinn G. Sverrisson, formaður Öldunnar stéttarfélags og Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga. Ég gat ekki betur séð en að þeir væru með fullri meðvitund og gætu þar með meðtekið þær upplýsingar sem að fram komu í máli mínu,“ segir Sólveig Anna og bætir við að í dag hafi þessir verkalýðsforingar birt grein ásamt Ólöfu Helgu og fleiri leiðtogum vinnandi fólks þar sem hún er kölluð gerandi, sökuð um gerræði, um að efna til ágrienings þar sem hann er ekki fyrir hendi og fara af fundum ef hún fái ekki sínu framgengt.

Í lok færslunnar segist Sólveig Anna vona að Finnbogi, Þórarinn eða Ólöf Helga gefi kost á sér til að leiða ASÍ. „Ég trúi nefnilega á leikreglur lýðræðisins. Og það er alltaf gaman þegar að við fáum að kjósa að valkostirnir séu eins skýrir og hægt er að hugsa sér.“

Færslu Sólveigar Önnu má lesa í heild sinni hér að neðan.