Sólveig Anna: Halldór þurfi að athuga eigin veruleikatengingu

15. október 2020
19:00
Fréttir & pistlar

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, þurfi að athuga eigin veruleikatengingu.

Halldór Benjamín ritaði grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann gagnrýnir nýja herferð Eflingar gegn launaþjófnaði. Segir Efling að heildarkröfur á hendur atvinnurekendum, vegna vangoldinna launa félagsmanna í Eflingu, næmu ríflega milljarði væri horft til síðustu fimm ára. Vill félagið að svokallaður launaþjófnaður verði gerður refsiverður.

Halldór Benjamín segir herferðin hafi það markmið að stilla atvinnurekendum og starfsmönnum upp sem andstæðingum.

„Atvinnurekendur séu upp til hópa brotamenn sem veigri sér ekki við að hlunnfara starfsfólk sitt. Sú mynd sem Efling dregur upp af stjórnendum fyrirtækja og Samtökum atvinnulífsins (SA) er ómálefnaleg og veruleikafirrt.“

Sólveig Anna svarar honum á Facebook og segir að hún sé nú að rifja upp atburði sumarsins þar sem flugfreyjum Icelandair var sagt upp eftir að ekki tókust samningar. „Þetta ógeðslega "union busting" framkvæmdi Icelandair í miðri kjaradeilu, sem er augljóst, gróft og skammarlegt brot á 4. grein íslenskra laga um stéttarfélög og vinnudeilur, þeirra laga sem íslenskur vinnumarkaður hvílir á.Þetta brot framdi Icelandair með dyggum og yfirlýstum stuðningi Samtaka atvinnulífsins og fór þar fremstur Halldór Benjamín,“ segir Sólveig Anna.

„Sem ætti kannski aðeins að athuga veruleikatenginguna hjá sér. Því það er frekar skammarlegt þegar það kemur svona berlega í ljós á prenti hvað menn eru fluttir langt frá "the reality based community".“