Sólrún Diego fagnar þrítugsafmæli sínu í kvöld - Camillu Rut hvergi að sjá

Samfélagsmiðlastjarnan og skipulagsdrottningin Sólrún Diego fagnar þrítugsafmæli sínu í kvöld með pompi og prakt. Fylgjast má með dýrðinni á Instagram-reikningi Sólrúnar sjálfrar og hjá öðrum samfélagsmiðlastjörnum, eins og merkjavörusérfræðingnum Línu Birgittu, sem er boðið til gleðinnar. Má búast við að cirka 10% þjóðarinnar liggi límd yfir veisluhöldunum í þessum skrifuðu. Sólrún var sótt af vinkonum sínum og snæðir með þeim kvöldverð, mögulega kostaðan kvöldverð, á veitingastaðnum No Concept á Hverfisgötu.

Athygli vekur þó að fyrrum besta vinkona Sólrúnar, samfélagsmiðlastjarnan Camilla Rut, er ekki í afmælisboði Sólrúnar heldur gerði hún sér að góðu afmælisboð hjá annarri samfélagsmiðlastjörnu Tinnu Björk Kristinsdóttur eða TinnuBkr.

Eins og greint var frá á Hringbraut á dögunum þá eru fylgjendur Sólrúnar og Camillu Rutar í losti yfir meintum vinslitum stjarnanna. Þær voru óaðskiljanlegar um langt skeið, héldu úti hlaðvarpsþætti og varla leið sá dagur sem að þær minntust ekki hlýlega á hvora aðra.

Síðast sáu vinkonurnar saman þann 1. nóvember síðastliðinn í hófi í tilefni af tvöfaldu framlagi Sólrúnar í jólabókaflóð landsmanna.

Hvað gerðist í þessu hófi eða dagana eftir það er ráðgáta sem Instagram-þyrstir landsmenn eru í öngum sínum yfir. Hlýju orðin hættu að falla og það sem verra er - lækin gufuðu upp. Hvorki Sólrún né Camilla virðast hafa lækað færslu hjá hvorri annarri í háa herrans tíð og ekki laust við að örvænting sé farin að grípa um sig meðal fylgjenda. Er unfollow yfirvofandi?

Miðað við þetta skjáskot virðist þó Camilla Rut ekki vera á þeim buxunum. Hún brást við meintum fregnum af því að hún hefði unfollowað Sólrúnu með því að lýsa því yfir að hún myndi aldrei unfollowa vinkonu sína.

Camilla_neverunfollow.PNG

En ekkert boð í afmælisveislu gæti breytt öllu og útlitið hefur líklega aldrei verið svartara en nú. Að Camilla Rut hafi ekki verið í broddi fylkingar í þrítugsafmæli Sólrúnar hefði verið álíka líklegt og að Mike Pence myndi ekki mæta í kveðjuhóf Donald Trump.

Uppfært: Mike Pence mun víst ekki mæta í kveðjuhóf Donald Trump samkvæmt fréttum kvöldsins. Það er ekki víst hægt að treysta á neitt í þessari veröld lengur.