Solla eldar fyrir villt dýr á veturna: „ég þoli ekki að sjá svöng dýr í svona frosti – það besta sem kanínurnar fá eru volgar hrísgrjónanúðlur“

Solla Njáls hefur lagt það í vana sinn að gefa villtum dýrum mat fyrir utan heimili sitt. Þá leggur hún sig sérstaklega fram við að elda handa þeim mat á veturna.

„Mér finnst að allir ættu að gera þetta sem geta það. Sérstaklega á veturna þegar dýrin þurfa sérstaklega á okkur að halda,“ segir Solla í samtali við Hringbraut.

Mikill dýravinur

Solla býr niðri í Elliðarárdalnum, Breiðholts megin líkt og hún orðar það sjálf.

„Ég er bara rosalegur dýravinur og hef alltaf gert þetta á veturna. Ég þoli ekki að sjá svöng dýr í svona frosti. Ég hef einnig verið að gefa villikisum hérna fyrir utan. Þannig hef ég tekið það sem ég á og reynt að gefa dýrunum. Smáfuglarnir hafa verið sjúkir í hrísgrjón og svona, ég hef líka tekið stundum lambaslög sem ég á, soðið það og gefið öllum hröfnunum. Þeir elska það,“ segir Solla.

\"\"

Kanínur á lóð Sollu / Mynd: Aðsend

Segir hún nauðsynlegt fyrir dýrin að fá að borða þegar kalt er úti.

„Ég hef verið að sjóða núðlur og hrísgrjón með ýmislegu í fyrir öll dýrin hérna úti. Kanínur, smáfuglar og krummi. Það besta sem kanínurnar fá núna eru volgar hrísgrjónanúðlur með gumsi í. Það veitir mér alltaf jafn mikla ánægju að fóðra dýrin.“