Sóli og Viktoría lentu í óhappi daginn fyrir brúðkaupið: „Þetta er búið að taka alltof fokking langan tíma.“

„Jæja, maður er að fara að gifta sig á morgun, en þá lenti Viktoría í þessu áðan, að gata dekkið!“

Svona hefst frásögn grínistans Sóla Hólm sem birtist á Instagram-síðu hans í gærkvöldi, en hann og fjölmiðlakonan Viktoría Hermannsdóttir giftust í dag.

En líkt og þessi orð Sóla gefa til kynna, þá lentu þau í óhappi daginn fyrir brúðkaupið.

„Já semsagt verktakarnir sem eru gera við þarna fyrir ofan hringbrautina á Framnesveginum eru búnir að vera allt of lengi að þessu,“ segir Sóli og bætir við: „Ég ber rosa mikla virðingu fyrir verktöku, og jarðverktöku sérstaklega. Ég hef verið jarðverktaki á lóðinni heima hjá mér, og ég veit nákvæmlega að þetta tekur tíma. En þetta er búið að taka alltof fokking langan tíma.“

Sóli útskýrir síðan að á veginum hjá vinnusvæðinu sé „ógeðsleg járnbrú þarna með oddhvössum járnum“.

„Ef þú keyrir yfir þetta þá greinilega gatast dekkið og ég þurfti ekki á þessu að halda daginn fyrir brúðkaupið mitt,“ segir Sóli sem bendir þó á að hann sé ekki að tapa gleðinni, enda segir hann að hjá sér sé glasið alltaf hálffullt.

Í kjölfarið tekur Sóli fram að hefði hann verið að keyra bílinn hefði mögulega verið hægt að kenna glannaskap og kallastælum um, en hann segir að Viktoría sé of ábyrgur og varkhár bílstjóri til þess.

„Þessi brú er ógeðsleg og stórhættuleg og það eru margir búnir að hafa orð á því í götunni hennar mömmu. Ömurlegt helvítis helvíti. Og núna þarf ég og mín sjö manna fjölskylda að bera kostnað af þessu tjóni á dekkinu,“ segir Sóli.