Sóley lætur Vinstri græn heyra það: „Andfemínískt val!“

Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi oddviti Vinstri grænna í borgarstjórn, er ekki par sátt við val Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra á aðstoðarmanni. Líkt og greint var frá í morgun verður Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra.

Brynjar hefur ekki legið á skoðunum sínum um að réttarríkið þurfi að verja gegn ágangi þeirra sem vilja að menn séu dæmdir sekir án þess að sekt sé sönnuð.

Sóley beinir orðum sínum á Twitter til Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs:

„Það er beinlínis andfemínískt að setja málaflokk kynferðisbrota í hendur þessara manna. Önnur eins vanvirðing við þolendur og aktívista er vandfundin,“ segir hún.

Veðurfræðingurinn Elín Jónasdóttir segir heppilegra að spyrja Framsóknarflokkinn, sá flokkur þurfi að vilja vera í vinstristjórn til að það gangi upp.

„Það þýðir ekkert að benda eitthvað annað,“ segir Sóley. „Það er val að vera í ríkisstjórn sem gerir Brynjar Níelsson að aðstoðarmanni dómsmálaráðherra. Andfemínískt val!“