Söfnun hafin fyrir fjölskylduna: Kamila lést í hræðilegu slysi í Skötufirði

Vinir og vandamenn pólskrar fjölskyldu sem lenti í hræðilegu bílslysi um helgina hafa sett af stað söfnun fyrir fjölskylduna. Slysið átti sér stað í Skötufirði í Ísafjarðadjúpi síðastliðinn laugardag og voru þrjú um borð, hjónin Tomek Majewski og Kamila Majewska og sonur þeirra, Mikolaj, sem aðeins er eins og hálfs árs að aldri.

Kamila lét lífið í slysinu en í tilkynningu með söfnuninni kemur fram að sonurinn ungi sé í mjög slæmu ástandi.

„Kamila vinkona okkar dó í hræðilegu slysi á Íslandi. Ung, falleg og hæfileikarík kona,“ segir í tilkynningunni. Þar kemur fram að andvirði söfnunarinnar muni styðja nánustu fjölskyldu parsins til þess að fljúga til Íslands og veita Tomek og Mikolaj stuðnings auk þess sem að hverjum afgangseyri verði varið í að greiða fyrir flutning Kamilu til heimalands síns.

Söfnunin hefur farið vel af stað og hefur rúmlega helmingur upphæðarinnar safnast sem stefnt var að. Þá er greinilegt að fjölmargir Íslendingar hafa látið til sín taka og styðja við bakið á Tomek og Mikolaj.