Snýst dómsmál Lilju ekki um togstreitu milli hennar og Katrínar Jakobsdóttur?

Alþingismenn og fjölmiðlafólk hefur verið ákaflega upptekið af ágreiningi sem Lilja Alfreðsdóttir hefur vísað til dómstóla vegna kæru embættismanns sem fékk ekki embætti ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu.

Þingmenn hafa talað sig hása vegna þessa máls og haldið að þeir væru að koma höggi á pólitískan andstæðing og fjölmiðlafólk, einkum konur, hefur vart náð upp í nef sér vegna hneykslunar og talið að um mikið jafnréttismál kynja væri að ræða.

Hvort tveggja er rangt. Þessum aðilum hefur yfirsést kjarni málsins. Málið snýst um illan hug sem forsætisráðherra ber til menntamálaráðherra í ríkisstjórn sinni.

Hafdís Helga Ólafsdóttir, sem kærði ákvörðun Lilju, er skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu og þar með náinn samstarfsmaður og trúnaðarmaður Katrínar sem er yfirmaður hennar.

Dettur einhverjum í hug að Hafdís Helga hafi lagt í að kæra Lilju án vilja og vitundar yfirmanns síns, forsætisráðherrans? Auðvitað ekki. Katrín hefur heimilað henni að kæra og trúlega hvatt hana til dáða.

Ef það væru heilindi í samstarfi Katrínar og Lilju, hefði forsætisráðherra lagst gegn því að trúnaðarmaður í ráðuneytinu hennar réðist í að kæra menntamálaráðherra í ríkisstjórn hennar.

Vitað er að samstarf Katrínar og Lilju hefur ekki verið gott. Þó Katrín reyni að halda því fram að samstarf innan ríkisstjórnarinnar sé þokkalegt þá er vitað að hún óttast stöðugt að aðrir ráðherrar skyggi á sig. Hún er einkum viðkvæm gagnvart Lilju Alfreðsdóttur að þessu leyti.

Katrín ber ábyrgð á þeim undirmanni sínum sem kærði ákvörðun Lilju og vonast til að koma pólitísku höggi á hana. Heilindin eru ekki meiri en það.

Ekkert er við það að athuga að menntamálaráðherra kalli eftir niðurstöðu dómstóla vegna málsins. Til þess starfa þeir, að greiða úr deiluefnum.

Þingmenn sem sjá ekki slóttugheit forsætisráðherra í þessu máli ættu að snúa sér að öðru en stjórnmálum.