Snorri sendi vina­beiðni en fékk engin við­brögð: Nokkrum vikum síðar gerðist nokkuð magnað

Snorri Már Skúla­son, fjöl­miðla­maður og deildar­stjóri upp­lýsinga- og kynningar­deildar ASÍ, segist ekki trúa á til­viljanir. Snorri var í afar á­huga­verðu við­tali við Sigur­laugu M. Jónas­dóttur í þættinum Segðu mér á dögunum þar sem farið var um víðan völl. Fjallað er um við­talið á vef RÚV.

Í þættinum sagði Snorri meðal annars frá upp­vaxtar­árum sínum, fjöl­miðla­ferlinum, alkó­hól­ismanum og árunum sem friðar­gæslu­liði á Sri Lanka þar sem hann sá af­leiðingar morða og sjálfs­morðs­sprengju­á­rása í hverri viku.

Snorri ræddi einnig um skilnað sem hann gekk í gegnum árið 2019, en Snorri segist hafa óttast í kjöl­farið að verða ein­mana á efri árum. Ekki leið þó á löngu þar til hann kynntist konu sem er konan hans í dag.

„Ég var ekki marga mánuði al­einn. Það fór í gang ferli sem mér fannst of ó­trú­legt til að það gæti verið til­viljun, enda til­viljanir ekki til,“ sagði Snorri um að­dragandann að kynnum þeirra.

Þannig er mál með vexti að Snorri rak augun í mynd af huggu­legri konu á Face­book – konu sem hann þekkti ekkert. Á prófíl­myndinni var konan að koma í mark eftir ein­hvers­konar utan­vega­hlaup, sigri hrósandi með hendur upp í loftið.

„Ég hugsaði með mér: Svona konu gæti ég hugsað mér,“ segir Snorri sem segist ekkert hafa vitað um konuna, til dæmis hvort hún ætti mann. Eftir smá eftir­grennslan komst hann að þeirri niður­stöðu að konan ætti senni­lega ekki mann. „Þannig að ég geri það sem ég geri nánast aldrei, ég sendi ein­hverri mann­eskju sem ég þekki ekki neitt vina­beiðni.“

Svo leið og beið og konan svaraði ekki vina­beiðninni. Þegar vika var liðin á­kvað Snorri að draga vina­beiðnina til baka, hann skammaðist sín í rauninni fyrir að hafa sent hana.

„Svo bara gleymdi ég þessu. Þetta var ekkert stór­mál. Svo ein­hverjum mánuðum seinna þá sé ég póst frá henni,“ sagði Snorri en í póstinum sagðist konan sjá að hann hefði sent henni vina­beiðni fyrir ein­hverjum vikum síðan. Bað konan hann um að senda vina­beiðnina aftur ef hún var ætluð henni.

„Ég fór eitt­hvað að af­saka mig,“ segir Snorri sem kom hreint fram og sagðist hafa dregið beiðnina til baka þegar hún var ekki búin að svara. „Í fram­haldi af þessu hittumst við á kaffi­húsi og byrjuðum að­eins að spjalla saman. Þetta fór ró­lega af stað en við fundum að það var eitt­hvað þarna. Síðan þá er hún búin að vera hluti af mínu lífi og toga mig út úr mínum þæginda­ramma trekk í trekk,“ sagði Snorri meðal annars.

Konan hans í dag, Margrét Sæ­munds­dóttir, er hag­fræðingur í Seðla­bankanum og jóga­kennari í auka­starfi og segir Snorri að hún hafi meðal annars dregið hann með sér í jóga og á fjalla­skíði. Það er eitt­hvað sem Snorri hafði ekki áður kynnst.

Hægt er að hlusta á þetta fróð­lega við­tal við Snorra hér.