Snorri í hár saman við hægrikonur – Jóhannes Haukur hótar að hringja í foreldra hans

Snorri Másson, fréttamaður Stöðvar 2, komst í hann krappan á Twitter í morgun þegar hann svaraði færslu Katrínar Atladóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Katrín tjáði sig um komu Ómíkron-afbrigði Covid-19 til landsins og lét þá heyra það sem kalla eftir hörðum sóttvarnaraðgerðum vegna þess.

„Ómíkron komið til landsins og farið að dreifa sér en fólk mun samt kalla eftir að landamærum verði lokað. Eitthvað sem þótti sturluð pæling fyrir 2 árum en mörgum finnst léttvægt í dag,“ sagði hún.

Snorri notaði tækifærið og svaraði: „Hvað breyttist hjá okkur á þessum tveimur árum? Manni dytti helst í hug einhver stórviðburður eins og bara heimsfaraldur smitsjúkdóms eða eitthvað.“ Fékk hann heldur meiri viðbrögð en hún.

Erna Ýr Öldudóttir, fyrrverandi blaðamaður á Morgunblaðinu og yfirlýst hægrikona, lét hann heyra það:

„Er það hlutverk þitt sem blaðamaður að vera gagnrýnislaus þeytilúður fyrir stjórnvöld og erlend lyfjafyrirtæki? Færðu borgað fyrir það?“

Katrín svaraði honum: „Nýja normið, samkomutakmarkanir og lokuð landamæri.“

Þá kom stórleikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson og sagði Snorra að vera kurteis við Katrínu.

„Hún er með mjög valid ábendingar og þú ert með skæting. Ég læt foreldra þína vita ef þú heldur þessu áfram.“