Sniglapóstur Katrínar til Alþingis týndist

15. október 2020
10:37
Fréttir & pistlar

Erindi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra til Alþingis um að halda sérstaka umræðu um sóttvarnir týndist á leið frá stjórnarráðinu til Alþingis.

Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að Katrín verður frummælandi í sérstakri umræðu á Alþingi á mánudaginn um valdheimildir heilbrigðisráðherra samkvæmt sóttvarnalögum með hliðsjón af mannréttindaákvæðum í stjórnarskrá og alþjóðasamningum.

Boði Katrínar hafði ekki verið svarað af hálfu Alþingis fyrr en hún hafði orð á því í óundirbúnum fyrirspurnartíma á mánudaginn. Varð starfslið þingsins þá dálítið vandræðalegt þar sem enginn vissi hvað hún átti við.

Kom svo í ljós að erindið, sem var sent með bréfapósti, einnig þekkt sem sniglapóstur, hafði týnst í þinginu. Er talið að boðleiðir hafi riðlast vegna fjarvinnu stórs hluta starfsmanna þingsins í samræmi við sóttvarnaráðstafanir.