Snarpur skjálfti í hádeginu fannst vel á höfuðborgarsvæðinu

Tveir snarpir jarðskjálftar riðu yfir suðvesturhorn landsins klukkan rétt rúmlega tólf í hádeginu og fundust þeir víða. Samkvæmt fyrstu tölum var á fyrri 4,4 að stærð en sá seinni 4,3. Stærsti skjálftinn til þessa í hrinunni sem hófst á miðvikudag var 5,7 stig.

Frá miðnætti og fram að hádegi höfðu tveir skjálftar, yfir 3,0 að stærð, mælst og áttu þeir báðir upptök sín við Fagradalsfjall. Sá fyrri var 3,2 og sá seinni, sem reið yfir klukkan 11:59, var 3,1 að stærð. Báðir skjálftarnir sem urðu í hádeginu áttu upptök sín á sömu slóðum.

Viðbót kl. 12:25: Nú rétt í þessu reið annar nokkuð snarpur skjálfti yfir.