Smitaður ein­stak­lingur fór í ræktina á mánu­dag – „Alveg ó­þolandi“

22. október 2020
14:27
Fréttir & pistlar

„Það er alveg ó­þolandi þegar góðri þróun í far­aldrinum er stefnt í tví­sýnu með þessum hætti. Heil­brigðis­ráðu­neytið ber á­byrgð á því ef ný­gengið fer nú aftur upp,“ segir Björn Ingi Hrafns­son, rit­stjóri Viljans og höfundur bókarinnar Vörn gegn veiru.

Björn Ingi vísar í Face­book á frétt sem var í há­degis­fréttum RÚV þess efnis að ein­stak­lingur, smitaður af CO­VID-19, hafi sótt hóp­tíma í líkams­ræktar­stöð á Akra­nesi á mánu­dags­kvöld. Stöðinni var lokað í gær eftir að í ljós kom að smitaður ein­stak­lingur hafði verið þar innan­dyra.

Í frétt RÚV var greint frá því að allir sem sóttu tímann sem ein­stak­lingurinn var í þurfi nú að fara í sótt­kví og í sýna­töku. Ekki liggur hins vegar fyrir hversu margir þeir eru. Tekið er fram að ekki er um að ræða sömu stöð á Akra­nesi og smit kom upp í um daginn.

Hópa­tímar innan­dyra í líkams­ræktar­stöðvum voru heimilaðir í vikunni að því til­skyldu að allir þátt­tak­endur yrðu skráðir og fjöldi væri að há­marki 20 manns.