Slatti af fólki í ein­angrun eftir kaffi­boð hjá ömmu

Dæmi eru um að kórónu­veiru­smit séu að koma upp í litlum hópum sem dreifast síðan hratt manna á milli. Þetta segir Rögn­valdur Ólafs­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn hjá Al­manna­vörnum, í fréttum RÚV í kvöld.

„Til dæmis amma sem bíður heim til sín börnum og barna­börnum og tengda­fólki í kaffi eins og gengur og gerist. Við erum með slatta af fólki sem er komið í ein­angrun út af því,“ sagði Rögn­valdur.

Ellefu innan­lands­smit greindust í gær en þar af voru átta utan sótt­kvíar. Rögn­valdur sagði líkur á að svipaður fjöldi hafi greinst í dag en endan­legar tölur þar að lútandi liggja ekki fyrir.

„Við erum búin að standa okkur rosa­lega vel í góðan tíma og nú erum við að sjá vís­bendingu um að við séum að missa það úr höndnum, okkur finnst það grát­legt. Við getum þetta, geymum laufa­brauðs­hittinginn, geyma litlu partýin, reyna að halda okkur í gírnum og þá klárum við þetta,“ sagði Rögn­valdur.