Skúli ítrekar mikilvægi þess að gera erfðaskrá: „Sár sem sennilegast gróa aldrei um heilt“

Skúli Hansen, lögmaður hjá Hansen Legal, ritaði virkilega áhugaverða grein á Vísi í gær um hversu mikilvægt það að allir geri erfðaskrá. Nauðsynlegt er að huga að því fyrir fram hvernig hægt er að auðvelda ættingjum sínum ferlið sem tekur við eftir dauða nákomins ættingja.

Skúli ber upp spurninguna: Af hverju að rita erfðaskrá?

Gefum Skúla orðið: „Af hverju að rita erfðaskrá er eitthvað sem margir eru líklegir til að spurja sig að hér á landi þar sem reglur um skyldu- og lögerfingja eru nokkuð fast niðurnjörvaðar í ákvæðum I. kafla erfðalaga nr. 8/1962. Þó svo að helstu meginreglurnar séu þar fastmótaðar þá eru samt til ýmsar fjölskylduaðstæður sem eru orðnar nokkuð algengar í samfélagi okkar en fyrrnefnd lagaákvæði gera ekki ráð fyrir.“

Það er meðal annars mikilvægt þegar stjúpbörn eru í spilinu: „Ólíkt kynbörnum og kjörbörnum arfleifanda þá eru stjúpbörn ekki lögerfingjar,“ segir Skúli. Vegna þessa er erfðaréttur stjúpbarna enginn við andlát stjúpforeldris.

Skúli bætir við: „Stjúpbarn, sem ekki nýtur réttar samkvæmt erfðaskrá, er því háð góðvild og gjafmildi eftirlifandi foreldris og stjúpsystkina sinna þegar kemur að skiptingu arfs. Hið sama gildir um fósturbörn, en líkt og stjúpbörn hafa þau ekki erfðarétt nema kveðið sé á um hann í erfðaskrá.“

Annað dæmi eru sambúðarmakar í óvígðri sambúð: „Það kann að hljóma undarlega á 21. öldinni þegar stór hluti fólks ákveður að velja óvígða sambúð fram yfir hjónaband, að sambúðarfólk hafi ekki gagnkvæman erfðarétt samkvæmt erfðalögum en þannig er þó mál með vexti.“ Ef sambúðarfólk vilji tryggja að það erfi hvort annað í kjölfar andláts þá þarf að taka það fram í erfðaskrá.

Algengt er að upp komi erfiðara aðstæður þegar dæmi á borð við þau sem nefnd hafa verið hér koma upp: „Það liggur í augum uppi að þær ósanngjörnu aðstæður skapast ef ofangreindir aðilar eru skildir eftir arflausir við andlát stjúpforeldris, fósturforeldris eða sambúðarmaka eru líklegar til að skapa sár sem sennilegast gróa aldrei um heilt,“ segir Skúli.

Þar af leiðandi er afar mikilvægt að tryggja erfðarétt ástvina sinna með erfðaskrá. Skúli heldur áfram: „Til viðbótar því að fyrirbyggja að þær ósanngjörnu aðstæður, sem greint er frá hér að ofan, skapist þá getur erfðaskrá komið í veg fyrir að deilur verði til síðar meir um ráðstöfun arfs, t.d. við hjónaskilnað. Þannig er hægt að kveða á um það í erfðaskrá að arfur skuli vera séreign erfingja, en með slíku ákvæði er tryggt að viðkomandi arfi sé haldið utan skiptingu hjúskapareignar við skilnað,“ segir Skúli.

Á þetta sérstaklega við um verðmætar eignir, svo sem fasteign eða hlut sem hefur mikið tilfinningalegt gildi eða verðmæti.