Skrapp í Smára­lind að kaupa kaffi: Haugur af fólki í röðum fyrir utan tómar búðir

23. nóvember 2020
20:30
Fréttir & pistlar

„Skrapp í Smára­lind áðan að kaupa mér kaffi. Þar var fullt af fólki í röðum fyrir utan nánast gal tómar búðir. Þessi tíu manna tak­mörkun óháð stærð er svo gjör­sam­lega galin hug­mynd,“ segir Birgir Örn Guð­jóns­son lög­reglu­maður.

Birgir Örn gerir þarna tíu manna fjölda­tak­markanir sem eru í gildi í verslunum að um­tals­efni en sitt sýnist hverjum í þeim efnum. Nú eru sí­fellt fleiri farnir að huga að jóla­gjafa­inn­kaupum og mynduðust víða langar raðir um helgina fyrir utan verslanir. Birgir Örn var á ferð í Smára­lind í gær og voru raðir fyrir utan margar verslanir.

Andrés Magnús­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka verslunar og þjónustu, sagði í Morgunút­varpinu á Rás 2 í morgun, að hann hefði á­hyggjur af löngum röðum sem gætu myndast við verslanir um næstu helgi. Á föstu­dag er svo­kallaður „Black Fri­day“ sem er einn stærsti dagur í verslun hér á landi – og víða er­lendis – á hverju ári. Á mánu­dag fylgir svo „Cyber Monday“ sem er einnig stór.

„Menn sjá það bara fyrir sér að næsta helgi sem er og verður gífur­lega stór verslunar­helgi að þá verða hérna bið­raðir út um allar trissur. Það er alveg hreinar línur. Það er þess vegna sem það er svo gífur­lega mikil­vægt að það verði slakað á þessu sem allra fyrst,“ sagði Andrés.

Færsla Birgis hefur vakið tals­verða at­hygli og ljóst að margir hafa skoðun á málinu. Einn bendir honum á að 90 kíló­metra há­marks­hraði sé jafn galin hug­mynd. Hann þurfi bara að hlýða þrí­eykinu.

„Nei, þetta er jafn fá­rán­legt og að hafa 30 km há­marks­hraða á Reykja­nes­brautinni. Það er ein­mitt mis­jafn há­marks­hraði eftir vegum.“

Birgir Örn segir að þetta snúist um að tak­marka fjölda á á­kveðnum stöðum. „Að hafa fimm­tíu manns í röð fyrir utan rými þar sem 10 manns nánast týnast í flæmi er bara ekki mjög gáfu­leg mann­fjölda­stjórnun.“