Skorar á Katrínu og Bjarna að svara Bandaríkjunum af fullum þunga

Einar nokkur Viðarsson skrifar í dag opið bréf til ríkisstjórnar Íslands, en það birtist á Vísi í dag. Þar skorar hann á stjórnvöld að beita Bandaríkin viðskipatþvingunum. En það leggur hann til vegna ákvörðunnar hæstaréttar Bandaríkjanna um að gera það ekki að stjórnarskrárvörðum rétti að fara í þungunarrof.

„Hvar er fólkið sem stekkur fram og lýsir yfir stuðningi við þjóðir í stríði, öskrandi um frelsi án þess að hafa hugmynd um það hvort þjóðin standi á bak við það. Nú var að falla dómur frá dómurum sem eru allir pólítískt skipaðir þar sem frelsi einstaklinga um yfirráð yfir sínum eigin líkama er afnumið og falið sig á bak við það að það séu bara kjörgengnir fulltrúar sem eigi að geta sagt til um hvað séu lög. (Þýðir það ekki að allir dómar sem hafa fallið gegn lögum settum af lýðræðiskjörnum fulltrúum eru ógildir?)“

Einar spyr hvers vegna flokkarnir sem segist berjast fyrir frelsi leggi nú ekki viðskiptaþvinganir gegn Bandaríkjunum.

„Mér leikur forvitni á að vita hvers vegna ríkisstjórn Íslands sem er nú skipuð af flokkum sem þykjast á hátíðardögum vera fyrir frelsi einstaklinga hafa ekki nú þegar sett á viðskiptaþvinganir gegn Ameríku? Hvers vegna eru þessir boðberar frelsis sem þau nú þykjast vera ekki búin að leggja fram tillögu þess efnis á þingi Sameinuðu þjóðanna um að Ameríka verði beitt viðskiptaþvingunum þangað til sjálfsögð mannréttindi í hinum vestræna heimi verða virt þar?“

Hann óskar eftir skjótum svörum frá Katrínu Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssyni .

„Hvers vegna leiða þau ekki þjóðir heims í baráttunni fyrir því sem við teljum vera sjálfsögð mannréttindi. Ég óska eftir skjótum svörum frá Katrínu Jakobsdóttur og hinum aðalboðbera persónulegs frelsis Bjarna Benediktssyni um það hvers vegna íslensk stjórnvöld hafa ekki nú þegar fordæmt þessa hegðun og sett á viðskiptaþvinganir.“