Skóla­stjóri Borgó sendir for­eldrum bréf: „Of­beldið má ekki ná að sigra“

Að minnsta kosti sex manns þurftu að leita sér að­stoðar á slysa­deild eftir að til á­taka kom í Borgar­holts­­skóla í Grafar­vogi um há­­degis­bil í dag. Enginn hlaut al­var­lega á­verka en mörgum var illa brugðið eftir at­burðina.

Ár­sæll Guð­munds­son, skóla­stjóri Borgar­holts­skóla, sendi for­eldrum skólans bréf um málið í kvöld. „Við viljum þakka nem­endum fyrir yfir­veguð við­brögð í dag og leggjum ríka á­herslu á að of­beldið má ekki ná að sigra í okkar góða sam­fé­lagi.“

Ekki nemendur skólans

Skóla­stjórinn reifar því næst at­burði dagsins í bréfinu til að varpa ljósi á hvað hafi átt sér stað. „Of­beldis­menn mættu í skólann vopnaðir hnífum, hnúa­járnum og hafna­bolta­kylfu í ein­hverju að því er virðist upp­gjöri sem okkur skilst að hafi átt að fara fram allt annars staðar,“ segir Ár­sæll í bréfinu.

Vitað er að of­beldis­mennirnir sem báru hnífana eru ekki nem­endur skólans að sögn Ár­sæls. Nem­endum var um tíma haldið innan­dyra til að tryggja öryggi þeirra á meðan lög­regla eltist við á­rásar­mennina.

„Þar sem einn of­beldis­mannanna komst undan á hlaupum var allt kapp lagt á að koma nem­endum í öruggt skjól með því að halda þeim í stofum og senda þá heim í hollum.“ Þegar sér­sveit lög­reglunnar bar að garði var allur skólinn rýmdur.

Mikilvægt að eiga samtalið

„Við erum öll mjög miður okkar vegna þessa at­burðar en erum stað­ráðin í því að láta hann ekki eyði­leggja fyrir okkur frá­bært skóla­starf Borgar­holts­skóla og halda á­fram skóla­starfinu þegar á morgun.“

Nem­endum stendur til boða að hljóta á­falla­hjálp sér­fræðinga í skólanum sem verða til staðar í skólanum á morgun. Ár­sæll hvetur nem­endur ein­dregið til að ræða at­burðinn heima við og sækja skólann á morgun. „Kennarar munu ræða þennan at­burð við nem­endur sína á morgun en það er mjög mikil­vægt að eiga sam­talið.“

Þá geta nem­endur sótt þær skóla­töskur sem urðu eftir á morgun. Að­eins verður hægt að ganga inn um aðal­inn­gang skólans og verður gætt upp á að enginn ó­við­komandi aðili komist inn í skóla­bygginguna.