Róbert Wessman varð forstjóri 29 ára þrátt fyrir mikla lesblindu

„Ég held að lesblinda almennt geti verið ákveðin gjöf,“ segir Róbert Wessman, stofnandi Alvotech, í nýjasta hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar. Í þættinum ræða Sölvi og Róbert um feril Róberts, hjólreiðar, alvarlegt slys sem Róbert varð fyrir, eftirmálana af því og margt fleira.

Róbert var ekki gamall þegar hann varð forstjóri yfir stóru fyrirtæki en það hafðist fyrir þrítugt. Þrátt fyrir það má segja að Róbert hafi ekki fengið neitt gefins en námsferill hans var erfiður vegna lesblindu.

„Þetta var ekki greint þegar ég var ungur, en þetta lýsir sér þannig hjá mér að lesskilningurinn er ekki eins góður og maður þarf að hafa algjöra þögn þegar maður er að lesa og ég er miklu lengur að lesa en flest fólk. Þetta gekk ágætlega fram í menntaskóla, en á fyrsta árinu þar fór ég að sjá einkunnir sem ég hafði aldrei séð áður. Þetta var svo mikið efni að ég átti mjög erfitt með að komast yfir það. Ég var í íþróttum, félagslífi og spilaði á trompet, en ég ákvað sjálfur að þetta væri ekki að ganga og minnka allt annað en skólann. Ég hef líklega þurft að leggja talsvert meira á mig en hinir og þurfti að læra að finna aðrar lausnir, sem hefur kannski hjálpað mér að verða mjög lausnamiðaður. Í háskólanum komst ég yfir mjög fáar bækur og þurfti að finna leiðir til að láta hlutina ganga upp. Ég var alltaf síðastur út úr prófum og það þurfti yfirleitt að tosa af mér blaðið, en ég fékk hjálp frá vinkonum mínum í náminu, sem létu mig hafa glósurnar sínar,” segir Róbert sem segist í viðtalinu hafa þurft að sanna sig fyrir starfsfólkinu með verkum sínum eftir að hann kom út í atvinnulífið:

„Þó að ég væri 29 ára þá var ég mjög unglegur í útliti og leit líklega út fyrir að vera 22 ára. En það sem gerist í þessu eins og öðru er að maður þarf að sanna sig. Það er ekkert fengið með því að vera bara með nafnspjaldið. Við snerum rekstri félagsins við býsna hratt og þá fær maður fólkið með sér. En þó að ég hafi verið með viðskiptafræðimenntun undirbýr það mann aldrei alveg undir það að stýra stóru fyrirtæki. Þegar maður er kominn út í atvinnulífið eru viðfangsefnin mjög fjölbreytt og maður þarf að glíma við margt sem maður hefur aldrei sé. Háskólanám er að mörgu leyti þroski, en það gerir mann ekki að fullfærum stjórnanda þegar á hólminn er komið.”

Róbert rifjar svo upp alvarlegt slys sem hann lenti í árið 2013, en þá var Róbert orðinn einn öflugasti hjólreiðamaður Íslands og keppti í hjólreiðum og járnkarli.

„Ég var að keppa á þessum tíma í hjólreiðum, en ætlaði ekki að keppa í þessu móti. Þetta var hálfur járnkarl og ég var eiginlega kominn í að einbeita mér alveg að hjólreiðunum. En við höfðum sett Íslandsmet árið áður og 2-3 dögum fyrir mótið var verið að spyrja mig hvort ég ætlaði að láta taka af mér metið og ég ákvað að slá til. Þetta var Krísuvíkurvegurinn og hjólaðir 90 kílómetrar. Það var komið kvöld og sólin var í augnhæð og frekar mikil umferð, ég var á 48 kílómetra hraða og það síðasta sem ég man var að ég sneri við, en svo vaknaði ég bara í sjúkrabíl og ég man ekki ennþá eftir slysinu sjálfu. En eftir slysið sá ég á Garminu úrinu mínu að ég fór úr 48 kílómetra hraða beint niður í núll. Ég hafði semsagt hjólað aftan á bíl og ég tvíhryggbrotnaði og skarst mjög illa. Missti tennur og mikið blóð. Það tók 2 tíma að koma mér í sjúkrabílinn af því að hryggbrotið var óstöðugt. Það eina sem ég vissi þegar ég vaknaði í sjúkrabílnum var að ég væri mjög alvarlega slasaður, með óbærilega verki og mjög kalt af því að ég hafði misst svo mikið blóð. Þannig að maður vissi að maður væri ekki í góðum málum. Ég var settur í spelku niður allan líkamann, en man ekki mikið eftir fyrstu dögunum á spítalanum. En þeir 90 dagar sem tóku við voru rosalega erfiðir. 20 mínútur liðu stundum eins og heill dagur. Ég lá meira og minna á bakinu og horfði upp í loftið og vissi ekkert hvernig ég kæmi út úr þessu. Dagarnir voru miserfiðir, en fyrstu 2 mánuðina vildi ég ekki fá vini mína eða foreldra eða neinn til þess að heimsækja mig. Mér fannst bara erfitt að tala um þetta og átti erfitt með að fá til mín fólk sem myndi spyrja mig um hvernig ég hefði það.”

Róbert var á mjög sterkum morfínskyldum verkjalyfjum á klukkutíma fresti. Hann ákvað að hætta á lyfjunum þegar hann varð rólfær. „Það var mælt með því að gera það þannig að ég myndi minnka skammtana rólega, en ég ákvað bara að hætta strax og ég var fárveikur í fjóra til fimm daga. Ég var með 39-40 stiga hita og heitur og kaldur til skiptis. Það eru margir sem enda í miklu veseni með að hætta á þessum lyfjum eftir að hafa þurft að taka þau og ég skil það mjög vel eftir mína reynslu.”

Eftir 90 daga var ég kominn með hálskraga, en það var alveg heilt ár þar sem mig svimaði nánast stanslaust og var mjög flökurt og ég er ennþá töluvert verkjaður á köflum.”

Þáttinn í heild má sjá hér að neðan: