Skiptir Bjarni einhverju máli?

Litlu mátti muna að Sjálfstæðisflokkurinn hlyti verri útreið í kosningunum í gær en í kosningunum í apríl 2009, rétt eftir hrun, þegar flokkurinn fékk 23,7 prósent. Í gær gerði hann harða atlögu að þessu meti en endaði hársbreidd frá því, hlaut 24,4 prósent og fékk 16 þingmenn kjörna eins og 2009. Raunar er athyglisvert að skoða árangur Sjálfstæðisflokksins í þeim fimm þingkosningum sem Bjarni Benediktsson hefur leitt hann í gegnum frá því að hann tók við formennsku eftir hrunið og fyrir þingkosningarnar í apríl 2009.
Í kosningunum 2013 hlaut flokkurinn 26,7 prósent og 19 þingmenn. Í þeim næstu, 2016, fékk hann 29 prósent og 21 mann kjörinn. Eftir að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sprakk og kosið var að nýju í október 2017 tapaði flokkurinn miklu fylgi, hlaut 25,3 prósent og 16 menn kjörna, sem var næst lélegasti árangur flokksins í sögunni þar til í gær.
Sjálfstæðisflokkurinn var frá stofnun og fram til 2009 jafnan öruggur með 35-40 prósenta fylgi í þingkosningum með einni undantekningu, þegar fylgið fór undir 30 prósent eftir að Albert Guðmundsson klauf sig út úr flokknum mánuði fyrir kosningarnar 1987 og bauð fram undir merki Borgaraflokksins og uppskar næstum 11 prósenta fylgi. Nú virðist fylgi flokksins vera að festast um eða undir 25 prósenta mörkunum.
Sjálfstæðismenn hljóta að vera hnuggnir yfir úrslitum gærdagsins. Lengst af hefur flokkur þeirra státað af fyrsta þingmanni í öllum kjördæmum. Breyting varð á því í gær. Framsóknarflokkurinn á nú fyrstu þingmenn beggja norðurkjördæmanna og í Norðausturkjördæmi munar miklu á fylgi Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins.
Margir kenndu flokknum um hrunið og því þurfti brotlending hans í kosningunum 2009 ekki endilega að koma á óvart. Hrunið er hins vegar löngu afstaðið og skýringar á slöku gengi flokksins undanfarin ár er ekki þar að finna. Eitthvað annað veldur því að Sjálfstæðisflokkurinn höfðar ekki lengur til jafn breiðs hóps kjósenda og fyrr.
Hafa sjálfstæðismenn farið í naflaskoðun og reynt að greina ástæður þess að flokkurinn er vart svipur hjá sjón? Árangur flokksins í kosningum undir forystu Bjarna Benediktssonar hefur verið samfelld sorgarsaga fyrir flokksmenn.
Á formannsvakt Bjarna hefur flokkurinn tekið afdráttarlausa afstöðu gegn því að þjóðin fái að kjósa um hvort ljúka skuli aðildarviðræðum við ESB. Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um stórkostlegt misvæði atkvæða milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Þá má flokkurinn ekki heyra á það minnst að hróflað verði við gjaldtöku fyrir aðgang að þjóðarauðlindinni í sjónum. Þar stendur hann vörð um risastóra sérhagsmuni sægreifa. Í þessum og fleiri málum hefur Sjálfstæðisflokkurinn tekið sér stöðu andspænis en ekki með kjósendum. Erindi hans við kjósendur er því mun minna en fyrr á árum, þegar rými var fyrir frjálslyndar skoðanir innan flokksins.
Ef til vill er það tilviljun að ásjóna flokksins sem steingerð risaeðla í varðstöðu um andþjóðhagslega sérhagsmuni hefur harðnað mjög í tíð Bjarna Benediktssonar. Kannski er það ekki Bjarni sem stendur fyrir þessu. Það væri þá staðfesting þess að Bjarni sé ekkert annað en strengjabrúða sterkra sérhagsmunaafla sem fari sínu fram og noti Sjálfstæðisflokkinn og forystu hans í snatt fyrir sig. Sé svo, skiptir kannski litlu máli hver er formaður flokksins.
- Ólafur Arnarson