Skæruliði Samherja lætur af störfum

Arna Bryndís Baldvins McClure, lögmaður Samherja, hefur látið af störfum sem kjörræðismaður Kýpur á Íslandi. Þetta staðfesti utanríkisráðuneytið við Vísi.

„Þá fengum við tilkynningu frá stjórnvöldum á Kýpur, að Arna Bryn­dís Bald­vins McClure hafi látið af störfum frá og með þeim degi, sem kjörræðismaður á Íslandi. Og engar frekari skýringar gefnar á því,“ sagði upplýsingafulltrúi ráðuneytisins.

Arna varð landsfræg sem ein af meðlimum „Skæruliðasveitar“ Samherja, ásamt almannatenglinum Þorbirni Þórðarsyni og skipstjóranum Páli Steingrímssyni. Markmið þeirra var að grafa undan blaðamönnum, hafa áhrif á kosningar og skrifa greinar á fölskum forsendum.

Samherji hefur beðist afsökunar á framgöngu sinni. Hvernig gögnin rötuðu úr síma Páls til fjölmiðla er enn í rannsókn.