Hringbraut skrifar

Sjö leiðir til að endurræsa ísland

6. desember 2019
11:36
Fréttir & pistlar

„Flest­ir stjórn­mála­menn hafa hvorki áhuga á né dug til þess að leiða mik­il­væg deilu­mál til lykta. Þess vegna er stjórn­mála­bar­átt­an sjald­an fersk. Við erum að baka gömlu lumm­urn­ar enn einu sinni og þær batna ekki við það.“

Þetta segir Benedikt Jóhannesson einn af stofnendum Viðreisn. Hann bendir á að fólki finnst litlu máli skipta hvaða flokkar séu við stjórnvölinn, ekkert breytist. Benedikt hrósar því eina ári sem Viðreisn var í ríkisstjórn og bætir við:

„Eng­inn er hissa á því að lítið ger­ist í tíð nú­ver­andi rík­is­stjórn­ar. Flokk­arn­ir sem að henni standa hafa aft­ur­hald sem mark­mið. Ekki er hægt að saka þá um að sigla und­ir fölsku flaggi, þótt reynd­ar komi rík­i­s­væðing heil­brigðis­kerf­is­ins á vakt Sjálf­stæðismanna jafn­vel mér á óvart.

Stjórn­mála­flokk­arn­ir geta ekki komið sér sam­an um sann­gjarna gjald­töku fyr­ir aðgang að miðunum. Þegar ný teg­und veiðist á Íslands­miðum sam­ein­ast kerf­is­flokk­arn­ir um að gefa út­gerðinni hana líka. Jafn­vel vandað fólk snýst frá fylgi við mann­kind­ina og geng­ur í lið með sauðkind­inni um leið og það sest á Alþingi.“

Benedikt segir enn mögulegt að snúa þessari þróun við en þá með því að styðja flokka sem vilja og þora gera breytingar hratt.

Benedikt bendir síðan á sjö leiðir til að endurræsa Ísland en hann geti engu lofað nema að þjóðin standi við bakið á Viðreisn. „Eina leiðin til þess að hrista upp í kerf­inu er að styðja flokk sem vill skipta um for­rit.“

Sjö leiðir Benedikts eru þessar:

1. Ríkið á ekki að út­hluta gæðum til ákveðinna hópa án end­ur­gjalds. Sjáv­ar­út­veg­ur greiði markaðstengt auðlinda­gjald með því að ár­lega fari hluti kvót­ans á markað. Gjaldið renni til innviðaupp­bygg­ing­ar á heima­svæðum.

2. Land­búnaður lúti lög­mál­um al­mennr­ar sam­keppni. Inn­flutn­ings­höft og toll­ar á land­búnaðar­vör­ur af­num­in í áföng­um. Bænd­ur leyst­ir úr fá­tækt­ar­gildru.

3. Eng­inn verði þvingaður af vinnu­markaði ein­göngu vegna ald­urs.

4. Bæt­um hag fólks og fyr­ir­tækja með því að lækka vexti og verðbólgu til sam­ræm­is við ná­granna­lönd með upp­töku stöðugs gjald­miðils.

5. Náms­ár­ang­ur nái að minnsta kosti meðaltali inn­an OECD. Nám á bæði grunn- og fram­halds­skóla­stigi verði mark­viss­ara en nú er.

6. Kosn­inga­rétt­ur verði jafn, óháð bú­setu. Jafn­rétti þegn­anna er grund­vall­ar­hug­sjón lýðræðis­ins.

7. Þjóðar­at­kvæði um að ljúka aðild­ar­viðræðum við Evr­ópu­sam­bandið til þess að ná aðild­ar­samn­ingi sem bor­inn verður und­ir þjóðina.