Sjálf­stæðis­maðurinn gekk að Bjarna og rétti fram höndina – Þá hugsaði ég: Hvað hef ég gert?

Bjarni Hall­dór Janus­son, fyrr­verandi vara­þing­maður Við­reisnar, átti sæti á Al­þingi þegar hin um­deilda at­kvæða­greiðsla um til­lögu Sig­ríðar Á. Ander­sen fór fram um skipun dómara við Lands­rétt.

Bjarni, sem var 21 árs á þessum tíma og yngsti þingmaður sögunnar, segir í frétt RÚV að Sjálf­stæðis­flokkurinn hafi hótað stjórnar­slitum ef til­laga hennar yrði ekki sam­þykkt. Bjarni greiddi með til­lögunni og kveðst hann sjá eftir því, en ljóst hafi verið að Sjálf­stæðis­flokkurinn vildi klára málið mjög hratt.

„Maður veit það bara, það er mjög mikið lagt upp úr hlýðni í Sjálf­stæðis­flokknum. Sjálf­stæðis­menn voru ekkert sér­lega á­nægðir með að það væri verið að gagn­rýna þetta,“ hefur RÚV eftir Bjarna sem sjálfur segist hafa viljað sam­þykkja frá­vísunar­til­lögu og skoða málið ofan í kjölinn.

Þá segir Bjarni að af­staða þing­flokks Við­reisnar hafi verið þannig að þau töldu að hægt væri að treysta Sjálf­stæðis­flokknum í málinu, enda á þessum tíma­punkti starfað með flokknum í ríkis­stjórn í ár.

Bjarni minnist sér­stak­lega þess að þegar hann kaus með til­lögunni hafi ó­nafn­greindur þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins komið til hans, tekið í hönd hans og þakkað honum fyrir.

„Hann hafði greini­lega vitað að ég væri einn af þeim sem væri á móti þessu. Þá fór ég strax að sjá eftir þessu og hugsaði: „Hvað hef ég gert?“.“

Þá segir Bjarni að hann hafi eftir þetta misst á­hugann á þing­mennsku. Hann hafði gengið með þann draum í maganum síðan í 10. Bekk að gerast þing­maður en þarna hafi hann áttað sig á því að hann hefði ekki þroskann sem til þyrfti.

„Ef ég hefði haft kjarkinn hefði ég setið hjá og sam­þykkt frá­vísunar­til­löguna.“