Sjálfstæðisflokkurinn felur frambjóðendur

Athygli vekur að margir helstu frambjóðendur og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa varla sést í kosningabaráttunni sem senn tekur enda. Flokkurinn hefur valið að sýna formanninn skælbrosandi í nánast öllum auglýsingum. Varaformaðurinn hefur einnig fengið að koma eitthvað fram en lítið hefur farið fyrir öðrum frambjóðendum. Bjarni Benediktsson er sjálfur í öllum viðtölum sem bjóðast en öðrum frambjóðendum er ekki treyst fyrir að koma fram á vegum flokksins.
Sjónvarpsstöðin Hringbraut bauð þó Guðlaugi Þór Þórðarsyni, oddvita flokksins í Reykjavík, í líflegar kappræður við Gunnar Smára Egilsson. Þar sýndi Guðlaugur Þór að honum er fyllilega treystandi til að koma fram fyrir hönd flokksins og hafa í fullu tré við hvern sem er í kappræðum. Sama sjónvarpsstöð bauð tveimur þingmönnum flokksins í þátt um stjórnmál nú í vikunni. Það var það fyrsta sem sést hefur til Óla Björns Kárasonar og Brynjars Níelssonar í kosningabaráttunni en þeir eru báðir í baráttusætum fyrir flokkinn.
Ráðherrar flokksins, þau Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Kristján Þór Júlíusson, virðast hafa verið í felum í aðdraganda kosninga. Kemur það á óvart. Þótt Kristján Þór sé að hætta í stjórnmálum hefði verið fullkomlega eðlilegt að hann kæmi fram og gerði grein fyrir störfum sínum sem ráðherra, tíundaði pólitísk afrek sín og svaraði fyrir margháttaða gagnrýni sem hann hefur mátt sæta. En svo er sem jörðin hafi gleypt hann, Áslaugu Örnu og reyndar ýmsa aðra frambjóðendur flokksins. Hver er skýringin?
Guðrún Hafsteinsdóttir, glæsilegur frambjóðandi flokksins í Suðurkjördæmi, hefur lítið komið fram í fjölmiðlum og sama má segja um Diljá Mist Einarsdóttur, sem var einn helsti sigurvegarinn í prófkjöri flokksins í Reykjavík. Hvers vegna ætli hún sé ekki notuð meira í kosningabaráttunni? Er það vegna þess hve öfgafull hún er í afstöðu til ýmissa mála – eða er það vegna þess að hún fellur ekki í kramið hjá flokkseigendafélaginu sem tapaði í prófkjörinu í Reykjavík fyrir Guðlaugi Þór og henni?
Með því að tefla nær einvörðungu fram formanninum tekur Sjálfstæðisflokkurinn þá áhættu að kjósendur rifji í auknum mæli upp vafasama fortíð hans í fjármálum Engeyjarfjölskyldunnar, þegar 200 milljarðar á núverandi verðlagi töpuðust í ýmsum fjárfestingum, skúffufélögum og snúningum hér á landi og í skattaskjólum. Kunnuleg nöfn klingja þá hugsanlega einhverjum bjöllum eins og Vafningur, Máttur, Þáttur, Sáttur, Falson og fleiri.
Þetta gífurlega tap lenti að miklu leyti á lífeyrissjóðum landsmanna sem eru í eigu þjóðarinnar – þeirrar sömu þjóðar og nú gengur að kjörborðinu.
- Ólafur Arnarson