Sjáðu launa­seðil ör­yrkja: „Ég sé fram á al­gjöra hörmung í desember“

20. nóvember 2020
13:44
Fréttir & pistlar

„Ég á hreint ekki til orð til að lýsa hugsunum mínum í garð stjórn­valda og þeirra sem ekki taka upp hanskann fyrir ör­yrkja, því­líkur skepnu­skapur er að fara svona illa með þá sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér.“

Þetta segir ís­lenskur ör­yrki sem birtir launa­seðil sinn fyrir nóvember­mánuð á héraðs­frétta­miðlinum Trölli.is á Siglu­firði. Ef marka má upp­lýsingarnar sem fram koma á seðlinum fær hann 225 þúsund krónur út­borgaðar.

Við­komandi lenti í slysi á unga aldri og hefur aldrei náð fullum bata. Af­leiðingarnar eru meðal annars þær að hann er ófær um líkam­lega vinnu. Með launa­seðlinum sem Trölli.is birtir fylgja nokkur orð frá ör­yrkjanum þar sem hann lýsir meðal annars á­hyggjum sínum af jólunum sem senn ganga í garð.

Þá rifjar hann upp fréttirnar um með­ferð vist­manna Arnar­holts fyrir 50 árum. „Víst var þetta hræði­leg og á­takan­leg með­ferð sem vist­menn urðu fyrir. Ef rýnt er í söguna með nú­tíma­gler­augum eigum við ekki orð yfir hvernig svona gat við­gengst fyrir 50 árum. Ég spyr jafn­framt – ef rýnt verður í söguna eftir 50 ár á með­ferðina á ör­yrkjum, hvernig verður sá dómur rétt­lættur að ör­yrkjar á Ís­landi voru sveltir árið 2020?“

Þá segist við­komandi hafa hugsað að nú væri illt í efni þegar hann var að elda kvöld­matinn sem saman­stóð af tveggja daga gömlum grjóna­graut og hafra­graut síðan um morguninn.

„Allar nauð­synjar hafa hækkað tölu­vert vegna styrkingar krónunnar og ég sé fram á al­gjöra hörmung í desember. Ég get ein­fald­lega ekki lifað og sé fram á að há­tíðar­maturinn verði étinn úr eigin nefi.“

Hér má sjá um­fjöllun Trölla og mynd af launa­seðlinum með öllum upp­lýsingum.