Sjáðu hvað kostar að fljúga til London með Play

Flugfélagið Play hóf sölu á miðum í morgun en fyrstu sjö áfangastaðir félagsins eru Alicante, Barcelona, Berlín, Kaupmannahöfn, London, París og Tenerife.

Hringbraut skoðaði að gamni verð á flugi til London þann 15. júlí, en þann dag er hægt að fá sætið á 6.500 krónur. Sætið heim, þann 19. júlí, kostar 8.507 krónur. Flogið er til og frá Stansted.

Greiða þarf sérstaklega fyrir farangur, bæði handfarangur og innritaðan farangur. Þannig kostar ein taska í handfarangri 3.100 krónur og ein innrituð taska kostar 3.900 krónur. Samanlagður kostnaður er því 22.007 krónur. Þá er hægt að kaupa sér tryggingu ef viðkomandi þarf að hætta við ferðina fyrir 2.000 krónur.

Flug til London mánudaginn 2. ágúst kostar 9.452 krónur og flugið heim þremur dögum síðar kostar 6.150 krónur. Miðað við að einstaklingur taki með sér eina innritaða tösku og eina tösku í handfarangri kostar ferðalagið þannig 22.602 krónur.

Núverandi flugáætlun gildir út apríl 2022 og verður fyrsta flug félagsins til Stansted í London þann 24. júní næstkomandi.