Símon minnist Kol­brúnar: „Að­dáunar­vert hvernig hún tókst á við veikindi sín“

18. september 2020
20:00
Fréttir & pistlar

„Við kveðjum núna, langt um aldur fram, góða vin­konu okkar og sam­starfs­konu, Kol­brúnu Sæ­vars­dóttur héraðs­dómara,“ segir Símon Sig­valda­son, dóm­stjóri Héraðs­dóms Reykja­víkur, í Morgun­blaðinu í dag.

Þar minnist Símon Kol­brúnar Sæ­vars­dóttur héraðs­dómara sem lést á líknar­deild Land­spítalans í Kópa­vogi þann 9. septem­ber síðast­liðinn. Kol­brún fæddist 7. ágúst 1964 og var því 56 ára þegar hún lést. Út­för hennar fór fram frá Hall­gríms­kirkju í dag.

Kol­brún hóf nám við laga­deild Há­skóla Ís­lands árið 1985 og lauk cand. jur.-prófi vorið 1990. Eftir laga­deildina vann Kol­brún hjá borgar­fógeta í tvö ár. Þá réð hún sig til ný­stofnaðs Héraðs­dóms Reykja­víkur sem full­trúi en árið 1993 opnaði hún lög­manns­stofu. Haustið 1995 skráði Kol­brún sig í nám við Há­skóla Ís­lands og hélt í skipti­nám til Kaup­manna­hafnar. Þar stundaði hún nám í Evrópu­rétti.

Kol­brún flutti heim frá Kaup­manna­höfn vorið 1997 og hóf þá störf hjá fíkni­efna­deild lög­reglunnar í Reykja­vík og var þar fram í árs­byrjun árið 2000 er hún hóf störf hjá ríkis­sak­sóknara. Kol­brún fór í meistara­nám í al­þjóð­legum mann­réttindum við Há­skólann í Lundi og lauk því námi vorið 2001. Eftir heim­komu hélt hún á­fram að vinna hjá ríkis­sak­sóknara og vann þar sem full­trúi þar til hún var skipuð sak­sóknari árið 2005. Árið 2010 var Kol­brún settur héraðs­dómari við Héraðs­dóm Reykja­víkur og þann 1. mars 2012 var hún skipuð í em­bættið.

„Starfs­ævi Kollu var við­burða­rík og starfaði hún meðal annars lengi innan lög­reglunnar og á­kæru­valdsins. Var hún því öllum hnútum dóm­stólsins kunnug þegar hún kom til okkar 2010,“ segir Símon í minningar­grein sinni og bætir við að hún hafi fallið strax vel inn í hópinn og tekist á við öll þau úr­lausnar­efni sem dóm­stóllinn hefur með höndum.

„Þannig vann hún við al­menna deild dóm­stólsins, dæmdi um tíma saka­mál, en mestan part starfs­ævinnar hjá okkur dæmdi hún al­menn einka­mál. Kolla var á­ræðin í starfi. Hún átti auð­velt með að leysa úr hvers konar á­greinings­efnum, þó svo sum hver hafi verið lög­fræði­lega flókin og önnur þar sem reyndi mikið á mann­legan skilning. Það fór gott orð af Kollu sem héraðs­dómara og var hún góður full­trúi sinnar starfs­stéttar.“

Símon segir að það hafi verið öllum mikið reiðar­slag þegar Kol­brún greindist með krabba­mein sumarið 2012.

„Henni gekk hins vegar vel í með­ferðinni og var það því mikið á­fall þegar krabba­meinið náði sér aftur á strik í lok árs 2015. Kolla háði mikla bar­áttu við krabba­meinið, eins og hennar var jafnan háttur í öllu sem hún tókst á við, en varð að lokum að láta undan. Það var að­dáunar­vert hvernig hún tókst á við veikindi sín. Æðru­laus og lét fátt skemma fyrir sér góða skapið. Hún var dug­leg við að ferðast um framandi slóðir og ætlaði svo sannar­lega ekki að láta spennandi staði fara fram hjá sér þó svo hún hafi vitað að tíminn væri skammur. Við sem með henni höfum starfað sitjum eftir og söknum góðrar vin­konu. En lífið verður að halda á­fram og við að muna að öll erum við einungis lítið sand­korn í lífsins vél. Takk elsku Kolla fyrir öll árin saman,“ segir Símon sem skrifaði minningar­greinina fyrir hönd sam­starfs­fólks í Héraðs­dómi Reykja­víkur.