Simmi hendir fram óvinsælli skoðun: „Ég er ekki að réttlæta neitt“

Sigmar Vilhjálmsson betur þekktur sem Simmi Vill kemur Katar til varnar í nýjasta þætti af hlaðvarpinu 70 mínútur sem hann heldur úti ásamt Huga Halldórssyni.

433.is greindi fyrst frá ummælum Simma sem vakið hafa mikla athygli. HM í knattspyrnu er haldið í Katar, þar sem bjór er bannaður á leikvöngum og almennt í landinu þegar ekki er fótboltamót og mannréttindi fólks, meðal annars þeirra sem eru hinsegin gjörsamlega virt að vettugi.

Sigmar segir að fólk verði að virða menningu Katara.

„Segjum að þú farir til Tenerife. Ert þú týpan sem fer beint á Íslendingabarinn? Þú ert að læra á nýjan kúltúr er það ekki? Er þá ekki bara frábær tilbreyting að mæta til Katar og upplifa hvernig Katar er, en ekki bara fara beint á Íslendingabarinn? Katar á ekki endilega aðlagast heldur eigum við kannski bara að aðlagast þeim og kynna okkur í leiðinni þennan kúltúr,“ segir Sigmar í hlaðvarpsþættinum 70 Mínútur.

Hann segir okkar mannréttindi ekki endilega mannréttindi annars staðar.

„Það er okkar norm, ekki þeirra norm. Ég er ekki sammála þeirra kúltúr en við verðum að átta okkur á því að árið 1970 var það nú bara þannig að við gerðum samkynhneigða brottræka úr samfélaginu okkar. Við erum komin lengra í þessu en þeir eru að komast þangað. Við vorum ekkert rosalega fljót til í þessum efnum en þegar við vorum til gerðum við það á ógnarhraða. Það er enginn ósammála því að það var frábær þróun.“

Sigmar bendir á að margir hafi bent á aðbúnað verkafólks í Katar.

„Ræðum aðeins aðstæður erlendra verkamanna á Íslandi. Ég veit ekki betur en það að Kveikur hafi gert heljarinnar úttekt á aðstöðu og aðbúnaði verkamanna,“ segir hann og bendir á að hægt sé að finna fjöldanna allan af harmsögum af erlendum verkamönnum á Íslandi.

„Ég myndi giska á það að fleiri erlendir verkamenn hafi dáið á Íslandi út frá fjölda. Ef þú skoðar aðbúnað verkamanna sem koma hingað þá held ég að við séum með allt niður um okkur.“

Simmi segist ekki vilja koma Katar til varnar.

„Ég er ekki að réttlæta neitt sem Katar stendur fyrir. Ég er bara að biðja ykkur um að vera ekki svona einsýn og sjá betur flísina í auga náungans en bjálkann í sínu eigin.“

Af hverju mætti hann í regnbogabol?

Hugi Halldórsson er með Sigmari í hlaðvarpinu og segist reiður að sjá hluti á borð við það að fólki í regnbogabolum sé vísað frá leikvöngum í Katar.

„Af hverju mætti hann í regnbogabol? Af hverju viltu koma sem gestur og ögra? Þú veist hverjar reglurnar eru og að þetta samfélag er ekki komið þangað,“ segir Sigmar við því.

„Við verðum að samþykkja kúltúr Katar eins og hann er og að hann sé að breytast.

Það er ekkert bannað að vera samkynhneigður, bara ekki flagga því. Ég er ekki sammála þessu en ég hef skilning á þessu.“