Viðvörun til mannkyns: „Verðum að breyta lífsstíl okkar og það hratt“

„Kórónuveiran er viðvörun til mannkynsins um að við verðum að breyta lífsstíl okkar og það hratt,“ segir Sigursteinn Másson, fjölmiðla- og kvikmyndagerðarmaður, í færslu sinni á Facebook.

Hann deilir þar umfjöllun The Guardian um kórónaveiruna og hvernig hún barst frá dýrum til mannfólks. Þar er kjötiðnaðurinn tekinn fyrir og sýnt fram á hvernig hann getur skapað kjöraðstæður fyrir veirur á borð við kórónaveiruna til að smitast yfir í menn.

„Hún er hreinn barnaleikur í samanburði við þá veirufaraldra sem geta sprottið upp af verksmiðjuframleiðslu með dýraafurðir í náinni framtíð,“ segir Sigursteinn og bendir svo á þann þátt sem kjötiðnaðurinn hefur fyrir umhverfismál:

„Á meðan flestir tala um nauðsyn þess að draga úr flugi, sem er ábyrgt fyrir um 4% af C02 losuninni í heiminum, tala mun færri um stórvarasama massadýraræktun til matvælaframleiðslu sem þó veldur fjórðungi af heimslosuninni og skapar stóraukna hættu á skæðum veirufaröldrum.“