Sigur­jón telur að Inga hafi gert stór mis­tök

Sigur­jón M. Egils­son, rit­stjóri Miðjunnar, segir að mis­tök sem Inga Sæ­land, for­maður Flokks fólksins, gerði fyrir síðustu kosningar gætu hrein­lega kostað hana flokkinn og þing­sætið.

Í pistli á vef Miðjunnar í morgun bendir Sigur­jón á að Flokkur fólksins berjist nú fyrir lífi sínu. Nú þegar innan við ár er til kosninga mælist fylgi flokksins rétt innan við fimm prósent eins og í síðustu kosningum. Til að ná manni inn á þing þarf að ná þessu fimm prósenta marki.

„Inga stóð sig vel í að­draganda síðustu kosninga. Það skilaði henni fjögurra manna þing­flokki. Fögnuðurinn stóð ekki lengi. Inga hafði fallið fyrir tveimur út­lögum úr Sjálf­stæðis­flokki, Ólafi Ís­leifs­syni og Karli Gauta Hjalta­syni. Þeir eru full­komin and­staða við Ingu og Guð­mund Inga Kristins­son,“ segir Sigur­jón og bætir við að þing­flokkurinn hafi í raun verið klofinn í upp­hafi. Báðir höfðu þeir Ólafur og Karl setið á þingi í skjóli Ingu þegar þeir tóku að svíkja hana og upp­nefna.

„Fari svo, eins og margt bendir til, að Flokkur fólksins nái ekki kjörnum þing­manni verður það fyrst og síðast vegna mis­taka Ingu í upp­hafi. Hún lagði traust sitt á menn gjör­ó­líka henni sjálfri og þá um leið flokknum,“ segir Sigur­jón og bætir við að í huga hans komi ör­lög Flokks fólksins.

„Daginn sem sá flokkur gekk Við­reisn og Sjálf­stæðis­flokki á hönd var dauða­dómurinn kveðinn upp. Mögu­lega munu mis­tök Ingu kosta hana flokkinn og þing­sætið. Ólafur og Karl Gauti munu hugsan­lega halda þing­sætum. Það er samt mjög ó­víst. Til að það verði verður Mið­flokkurinn að gera betur. Sem hann mun reyna. Fylgi hans mældist hvað hæst með meðan mál­þófið vegna orku­pakkann var á dag­skrá. Ekki meira um Mið­flokkinn.“

Sigur­jón segir að ef fer sem horfir verði sjónar­sviptir ef Guð­mundur Ingi Kristins­son, þing­maður Flokks fólksins, dettur af þingi. Þar sé á ferðinni ötull bar­áttu­maður sem Al­þingi þarf á að halda.

„Hið von­lausa vega­nesti sem Flokkur fólksins, lagði af stað með eyðir jafn­vel flokknum,“ segir Sigur­jón í lok pistilsins.