Sigur­jón sendir Brynjari tóninn: „Hann nennir ekki í vinnuna“

25. nóvember 2020
20:41
Fréttir & pistlar

„Satt best að segja er allt­of langt gengið að eltast við fá­rán­legan fyrir­slátt Brynjar Níels­sonar. Ljóst er að Brynjar nennir ekki í vinnuna,“ segir Sigur­jón M. Egils­son, rit­stjóri Miðjunnar, í pistli sem birtist á vef hans í morgun.

Þar lætur hann Brynjar Níels­son, þing­mann Sjálf­stæðis­flokksins, heyra það en Brynjar hefur legið undir á­mæli af ýmsum á­stæðum síðustu daga. Í gær var greint frá því að Brynjar hefði ekki mætt á fundi stjórn­skipunar- og eftir­lits­nefndar Al­þingis í rúman mánuð. Hefur hann misst af tíu fundum og raunar óskað eftir því að fá að hætta í nefndinni þar sem hann telur störf hennar vera pólitískan leik.

Sigur­jón bendir á að Brynjar sé ekki venju­legur þing­maður sem þarf ekki endi­lega að vera slæmt.

„En sér­staða Brynjars er honum ekki til fram­dráttar, ekki flokknum hans og alls ekki Al­þingi. Skömm hans er mest vegna fram­komu hans við Al­þingi Ís­lendinga,“ segir Sigur­jón og bætir við að Al­þingi hafi kosið Brynjar til að gegna skyldum sínum sem full­trúi nefndarinnar.

„Hann van­virðir þingið með því að hunsa nefndina. Kannski nennir Brynjar ekki í vinnuna sína. Orð hans um starf nefndarinnar eru full­kom­lega út í hött. Halda ekki vatni,“ segir hann og telur ljóst að Brynjari langi ekki ekki að vinna í eftir­lits­nefnd Al­þingis.

„Hann segist sjálfur hafa löngu á­kveðið það. – Hann ætti þá bara að segja af sér í stað þess að grafa undan trausti á starfandi nefnd og hleypa að öðrum full­trúa Sjálf­stæðis­flokksins sem mætir á fundi til að setja sig inn í mikil­vægasta mál sam­tímans og sinna sínum skyldum að hafa upp­lýst og mál­efna­legt eftir­lit með sótt­varnar­yfir­völdum.“