Sigurjón kemur Eiði til varnar: „Óásættanlegt að KSÍ hafni honum“ – Á betra skilið

Sigurjón Magnús Egilsson, ritstjóri Miðjunnar.is, kom knattspyrnugoðsögninni Eiði Smára Guðjohnsen til varnar í pistli á vefsíðu sinni í gær. Hann húðskammar KSÍ fyrir brottrekstur Eiðs Smára úr starfi aðstoðarlandsliðsþjálfara.

Sigurjón vill að KSÍ sýni Eiði Smára meiri virðingu vegna alls þess sem hann hefur gert fyrir land og þjóð. Það þarf jú varla að fjölyrða um allt það sem Eiður Smári afrekaði á sínum glæsta ferli. Hann vann meðal annars ensku úrvalsdeildina með Chelsea, sem átti raunar eina bestu frammistöðu sem sést hefur frá sigurliði úrvalsdeildarinnar tímabilið 2004/05 með Eið í lykilhlutverki. Þá vann Eiður auðvitað meistaradeildina með Barcelona árið 2009, sem er raunar eitt besta knattspyrnulið sögunnar.

Þá er Eiður jafnmarkahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi með 26 mörk. Þetta eru auðvitað bara örfá afrek af hans ferli.

Sigurjón tekur þetta til greina í pistli sínum og vill meina að Eiður eigi betra skilið frá KSÍ: „Hvert sem gengi landsliðsins var mætti Eiður Smári. Það er því með ólíkindum að þegar Eiði Smára er sagt upp störfum skuli það gert af Knattspyrnusambandi Íslands.“

Hann heldur áfram: „Enginn fótboltamaður íslenskur hefur unnið eins mikið og stórt og Eiður Smári. Engum hefur tekist að skýra út leikkerfi og spil einstakra liða fyrir okkur og Eiður Smári.“

Sigurjón segir óásættanlegt að KSÍ hafni honum: „Það er óásættanlegt að KSÍ hafni honum. Eiður Smári er breyskur maður. Eins og við flest erum. Miðað við frásagnir gerði hann ekkert það, í hófi Knattspyrnusambandsins, sem á kosta brottrekstur.“

Hann segir Eið hafa unnið sér inn virðingu með því að hafa ávallt mætt í landsleiki, þrátt fyrir að vera stórstjarna og á þeim tíma er landsliðið tapaði fyrir smæstu þjóðum: „Munum þegar Eiður Smári lék með Chelsea og Barcelona kom hann ítrekað til að spila með landsliðinu. Hvert sem gengi landsliðsins var mætti Eiður Smári. Það er því með ólíkindum að þegar Eiði Smára er sagt upp störfum skuli það gert af Knattspyrnusambandi Íslands,“ segir Sigurjón.

Hann vill að KSÍ veiti Eiði aðstoð ef svo ber undir: „Nær væri að styðja Eið Smára þarfnist hann aðstoðar. Hann á það skilið. Heldur þveröfugt.“