Sigur­geir sleginn óhug: Myndaðir við að gera þarfir sínar? - „Svona á ekki að gera“

25. janúar 2021
09:20
Fréttir & pistlar

Sigur­geir Jóns­son, smá­báta­sjó­maður í Suður­nesja­bæ, lýsir yfir á­hyggjum sínum af væntan­legu dróna­eftir­liti Fiski­stofu.

Sigur­geir vísar í frétt á vef Fiski­stofu frá 7. janúar síðast­liðnum þar sem fram kom að stofnunin hefði tekið í notkun dróna við eftir­lit og verða þeir notaðir við eftir­lit á sjó, vötnum og landi.

Var tekið fram að aflað hefði verið til­skilinna leyfa og sagt til hverra menn eiga að snúa sér ef þeir vilja frekari upp­lýsingar. Í grein um málið í Morgunblaðinu í dag segist Sigur­geir hafa haft sam­band við deildar­stjóra veiði­eftir­lits Fiski­stofu og spurt um út­gáfu leyfanna og hvort sjávar­út­vegs­ráð­herra eða ein­hver í hans um­boði hefði gefið leyfi fyrir notkun drónanna.

„Ekki var annað á deildar­stjóranum að skilja en sjávar­út­vegs­ráð­herra hefði leyft ó­tak­mörkuð af­not drónanna við eftir­lit, þar með talið að fylgjast með skip­verjum við komu að skipi eða brott­för, allt að dyrum heimilis skip­verjans, í raun mætti Fiski­stofa fylgjast með skip­verjanum allan sólar­hringinn hvar sem næðist til hans.“

Sigur­geir nefnir að fyrir tveimur árum hafi þá­verandi fiski­stofu­stjóri viðrað þá hug­mynd að setja um borð í trillur sem önnur fiski­skip mynda­vélar til að Fiski­stofa gæti fylgjst með skip­verjum við störf sín.

„Sagðist Fiski­stofa vera með heimild frá ráð­herra til að fara í þetta. Fiski­stofa var spurð hvort henni væri kunnugt um að í fæstum þeim fleytum sem stunda hand­færa­veiðar væri önnur salernis­að­staða en borð­stokkurinn, sem mynda­vélin ætti að mynda, eða fata og ó­hjá­kvæmi­legt væri að neðri­hluti líkama manna sem væru að gera þarfir sínar yrði í mynd við eftir­litið sökum smæðar þeirrar fleytu sem Fiski­stofa teldi nauð­syn­legt að fylgjast með ef eyðing fisk­stofna á Ís­lands­miðum ætti ekki að eiga sér stað.“

Sigur­geir segir að ekki enn hafi orðið af því að Fiski­stofa komi með mynda­vélar um borð í smæstu klósett­lausu trillur. Nú skulu það vera drónar fyrir starfs­menn Fiski­stofu að leika sér með.

„En trillu­karlar munu halda á­fram að gera þarfir sínar úti á dekki á klósett­lausum trillum og veifa aftur­endanum við verkið hvort sem dróni frá ráð­herra strand­veiða og grá­sleppu er við mynda­töku af við­burðinum eða ekki. Nei ráð­herra, svona á ráð­herra ekki að gera.“