Sigurður varpar ljósi á sláandi verðmun: „Deilið fyrir okkur“

Færsla sem Sigurður Þorleifsson, fyrrverandi formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur, skrifaði hefur vakið talsverða athygli og gengið í gegnum endurnýjun lífdaga innan Facebook-hópsins Vertu á verði – eftirlit með verðlagi.

Í færslunni, sem Sigurður skrifaði upphaflega í janúarmánuði, skrifar hann um tryggingamál hér á landi og birtir mynd af Renault-bifreið árgerð 2018. Benti hann á að það kostaði hann 150 þúsund krónur að tryggja hann hér á landi en tók fram að undirvagn væri ekki tryggður í kaskó hér á landi. Þá kom að samanburðinum milli landa og óhætt að segja að munurinn sé mikill.

Sagði Sigurður að í Svíþjóð kosti sami bíll í kaskótryggingu, þar sem trygging á undirvagni er innifalin, 2.585 krónur sænskar, eða rétt rúmar 40 þúsund krónur. Á Englandi kosti sambærileg trygging tæpar 35 þúsund krónur.

„Þetta væri nú eitthvað fyrir verkalýðshreyfinguna að skoða fyrir sína umbjóðendur,“ sagði hann og bætti við á að Norðurlöndunum væri málum háttað þannig að verkalýðsfélög bjóði út tryggingar fyrir sína félagsmenn.

„Okkur myndi muna um svoleiðis gjörning hér á landi. Eldri borgarar á Íslandi ættu að skoða þetta. Hvað ætli við eldri borgarar eigum marga bíla? Það væri góður pakki til að bjóða út. Deilið fyrir okkur.“

Eins og að framan greinir vakti færsla Sigurðar mikla athygli þegar hún birtist í janúar. Var henni deilt yfir þúsund sinnum og voru ófáar athugasemdir skrifaðar við hana eins og sést hér að neðan. Færslan lifir enn góðu lífi því henni var deilt inn í fyrrgreindan Facebook hóp fyrir helgi þar sem hún vakti talsverða athygli.