Sigurður styður bann við nagladekkjum en segir áætlun um lækkun hámarkshraða alvitlausa

Sigurður Oddsson, verkfræðingur og eldri borgari, segist styðja heilshugar bann við notkun nagladekkja. Hann hristir hins vegar hausinn yfir þeirri áætlun borgarinnar að ætla að lækka hámarkshraða á götunum.

Sigurður skrifar athyglisverða grein um málið í Morgunblaðið í dag og rifjar upp að hann hafi eitt sinn verið búsettur í svissnesku borginni Zurich.

Eitt vorið fór fram mikil rannsókn á götum sem þóttu óeðlilega mikið slitnar. Vegsnið voru mæld um alla borgina. Alls staðar var mikið slit miðað við fyrri ár. Rannsókn á steinefnum og bindiefnum malbiks leiddi í ljós að gæðin voru í lagi. Næsta vor staðfestu mælingar áfram óeðlilega mikið slit. Það var ráðgáta, þar til kom í ljós að ástæðan var augljós: Nagladekkin.“

Sigurður segir að Svisslendingar hafi verið fljótir til og bannað nagladekk í landinu. Þetta hafi verið einföld lausn sem virkaði strax og það sama ættu Íslendingar að gera.

„Við getum það alveg eins og Sviss með alla sína fjallvegi í Ölpunum. Minnisstætt frá vetrinum á eftir eru sjónvarpsskot sem sýndu skíðatúrista naglhreinsa bíla sína á landamærunum. Í Sviss greiðir almenningur ekki fyrir sérþarfir annarra með sköttum og því var auðvelt að banna nagladekkin.“

Sigurður bendir á að það kosti að malbika en í Sviss séu vegir malbikaðir á margra ára fresti, en ekki annað hvert ár eins og sums staðar. Hann bendir þó á að bannið hafi ekkert haft að gera með svifryk.

„Í Sviss er ekki svifryk, því vegir eru hannaðir með réttum halla fyrir regnvatnið að renna í niðurföllin. Rigningar sjá að mestu um þvottinn, en þess á milli eru götur spúlaðar og bununni beint í niðurföllin. Hjá okkur rennur regnvatnið eftir hjólförum í malbikinu og nær ekki í niðurföllin. Þetta getur hver og einn skoðað við keyrslu um bæinn í rigningu. Þannig skemmir vatnið götur borgarinnar um leið og umferðin hefur myndað hjólför. Stórir trukkar og strætó skemma mest og þyrla upp mestu svifryki.“

Sigurður er þeirrar skoðunar að svifrykið á götum Reykjavíkurborgar sé aðallega vegna þess að götur eru lítið eða ekki þvegnar.

„Við erum laus við rykið á meðan vegir eru blautir, en svo gýs það upp um leið og þornar. Það þarf ekki mikil vísindi til að sanna að með lækkun hámarkshraða úr 50 í 30 km/klst minnkar svifryk. Það réttlætir samt ekki lækkun hraðans, sé dæmið skoðað til enda,“ segir Sigurður sem segir að lækkunin sé það vitlausasta sem hann hefur séð koma frá borgarskipulaginu að mörgu öðru ólöstuðu.

„Hvað verður það næst? Áætlað er að umferðartafir kosti 15 milljarða á ári. Þær munu snaraukast við lækkun hraðans og fara stigvaxandi ár frá ári. Það verður komið algjört kaos löngu áður en borgarlínan (sem öllu átti að redda) verður tekin í notkun. Kostnaður borgarlínu var áætlaður að stærðargráðu 100 milljarðar, en gæti orðið tvöfalt meiri, ef að líkum lætur. Framtíð komandi kynslóða Reykjavíkur er ekki björt með þetta allt í arf og það á sama tíma og fyrirtæki flýja borgina.“