Hringbraut skrifar

Sigurður lætur hjartað ráða för: „steig vangadans við manninn með ljáinn“

13. desember 2019
12:30
Fréttir & pistlar

Sigurður Sólmundarson, leikari og uppistandari, þekktur af mörgum sem Costco-gaurinn, lenti í alvarlegu bílslysi fyrir ári síðan. Brotnaði Sigurður á báðum fótum, brotnaði á olnboga, úlnlið og lifrin skaddaðist. Í frétt Vísis á þeim tíma kom fram að Sigurður var að skutla vinnufélaga sínum heim og á leið aftur á Selfoss. Sigurður fékk aðsvif og lenti á bíl sem var að koma úr gagnstæðri átt en þar var ung kona undir stýri. Bæði Sigurður og unga kona, slösuðust mikið. Var Sigurður heppinn að komast lífs af og stúlkan sem Sigurður ók á hefur enn ekki náð fullum bata eftir áreksturinn.

\"\"

Í dag er ár síðan ég steig vangadans við manninn með ljáinn. Sem betur fer kvöddumst við eftir dansinn og nánari kynnum var slegið á frest um óákveðinn tíma. Í viðtali við Vísi sagði Sigurður:

„Ég hélt meðvitund alveg þangað til þeir voru farnir að klippa í kringum lappirnar á mér, þá man ég ekki meira, sem er mjög mikill skellur því ég missti alveg af þyrluferðinni. Mér finnst það mjög, mjög leiðinlegt. Ég hef lent í svona slysi áður og fékk ekki að fara í þyrlu þá en nú fékk ég að fara í þyrlu en man ekkert eftir því.“

\"\"

Sigurður ásamt Sóla Hólm bróður sínum

Sigurður minnist þess á samfélagsmiðlum að ár sé liðið frá slysinu. Hann segir:

„Þetta ár er án nokkurs vafa viðburðaríkasta ár í mínu lífi. Þetta ár hefur einkennst af litlum sigrum, stórum sigrum og vonbrigðum í bland. Með hjálp vina og ættingja hef ég reynt að tækla þau verkefni sem fyrir mig hafa verið sett af jákvæðni og bjartsýni með misjöfnum árangri, oftast góðum þó.“

\"\"

Sigurður ásamt unnustu sinni Julie Schleicher

Sigurður kveðst draga mikinn lærdóm af þessum tíma og stærsti lærdómurinn sé sá að hann lærði að lífið sé óútreiknanlegt. Hann segir:

„Við ættum aldrei að láta hamingju okkar ráðast af því hvað öðrum finnst um þig og þínar ákvarðanir. Láttu hjartað ráða för svo lengi sem það skaðar ekki aðra. Ég er innilega þakklátur fyrir lífið og fólkið sem ég elska.“

Uppfært: Í fyrstu útgáfu fréttar var sagt að unga konan sem var undir stýri á bílnum sem Sigurður ók á hefði sloppið án teljandi meiðsla. Hið rétta er að hún slasaðist alvarlega og hefur enn ekki náð fullum bata. Beðist er velvirðingar á mistökunum.