Sigurður G. hjólar í Gísla Martein og Guðna forseta: „Menn hafa sagt af sér opinberum störfum af minna tilefni“

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður með meiru, fer hörðum orðum um þátt Gísla Marteins Baldurssonar í gærkvöldi, þá sérstaklega ummæli Gísla um KSÍ. Sigurður, sem hefur verið áberandi síðustu daga í að verja knattspyrnuhreyfinguna gegn gagnrýni, fer einnig hörðum orðum um Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, og meinta hræsni hans fyrir að neita að sitja með fráfarandi stjórn KSÍ á nýlegum landsleik á sama tíma og meintur gerandi starfar hjá embætti forsetans líkt og Fréttablaðið greindi frá í vikunni. Einnig fyrir ummæli sín í viðtali hjá RÚV um að karlmenn eigi ekki að haga sér eins og fávitar.

„Gísli Marteinn fjallaði þar á sinn sérstaka hátt um málefni KSÍ og þá nauðgunarmenningu, sem RÚV hefur ítrekað fullyrt að stjórn KSÍ hafi látið viðgangast af hálfu landsliðsmanna og með því sýnt af sér geranda meðvirkni. Gísli Marteinn gætti ekki hlutleysis í þessari umfjöllun sinni fremur en fréttastofur ríkisins gerir þegar kemur að málefnum sem góða fólkið flykkist að baki til að líta vel út,“ segir Sigurður G. í langri færslu á Facebook.

„Meðal góða fólksins sem Gísli Martreinn og fréttastofa Ríkisútvarpsins sjá ekki sólina fyrir er núverandi forseti Íslands. Forsetinn blandað sér með sérstökum hætti í fréttaflutning RÚV af nauðgunarmenningu innan knattspyrnuhreyfingarinnar í fréttatíma RÚV fyrir utan Laugardagsvöll fyrir leik Íslands og Rúmeníu og taldi meinta gerendur haga sér eins og fávita.“

Sigurður G. segir að það fari ekki saman hljóð og mynd hjá Gísla Marteini og Guðna.

„Gísli Martein má sennilega flokka sem eineltissegg - einhvers konar skólalóðarbúllý - sem hæðist meðal annars að útliti stjórnmálamanna sem hann veit að ekki eigi upp á pallborðið hjá góða fólkinu,“ segir Sigurður.

„Forseti Íslands er svo einhver mesti velgjörðarmaður starfsmanns á Bessastöðum sem í þrígang hefur áreitt samstarfsmenn sína þar á bæ og beitt þá ofbeldi. Kona sem varð fyrir atlögu þessa skjólstæðings forsetans hlökkraðist úr starfi þegar ljóst var að hann héldi starfi sínu. Það getur gerandinn þakkað forsetanum.“

Sigurður telur að hvorki Kastljós né Kveikur á RÚV muni fara sömu höndum um forseta Íslands og Guðna Bergsson, fyrrverandi formann KSÍ. „Ekki verður minna spennandi að fylgjast með því, hvort fréttamenn Ríkisútvarpsins muni gangi fram að sömu hörku og beitt var gegn framkvæmdastjóra KSÍ, til að fá það upp úr núverandi og/eða fyrrverandi forsetarita hvað gerðist í starfsmannaferðinni frægu til Parísar. Í þeirri ferð reið ofbeldið húsum og rúmlega það, svo notuð sé orð látins sýslumanns um dólkshátt drukkins manns í umdæmi hans.“

Sigurður segir einnig að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, styðji þolendur ofbeldis, en hún hljóti að velta því fyrir sér hvort hún geti setið til borðs með forsetanum.

„Forsætisráðherra getur horft til forsetans í þessum efnum. Hann taldi sér það ekki samboðið að sitja með stjórn KSÍ á landsleik við Rúmeníu vegna gerandameðvirkni stjórnarinnar.

Menn hafa sagt af sér opinberum störfum af minna tilefni. Farið hefur fé fegurra eins og Jón Múli Árnason orðaði það þegar Berlínarmúrinn féll og fólk flúði ofbeldi kommanna í Austur Berlin.“