Sigurður: For­dómarnir eru úti um allt – „Skyldi maður verða barinn?“

„Ég hef oftar en einu sinni mætt hópi ung­linga á göngu­stíg klæddum sam­kvæmt nýjustu tísku með hljóð­græjur í eyrunum og fýlu­svip og hugsað með mér: Skyldi maður verða barinn? Svo hefur ein­hver þeirra boðið kurteis­lega gott kvöld.“

Svona hefst pistill eftir Sigurð Val­geirs­son, fjöl­miðla­mann og menningar­rýni, sem birtist á vefnum Lifðu núna á dögunum. Ó­hætt er að segja að pistill Sigurðar hafi vakið at­hygli en þar skrifar hann um aldurs­for­dóma sem ef­laust margir Ís­lendingar kannast við.

Ekki gera sér of almennar hugmyndir

Dæmi­sagan sem Sigurður segir hér að framan minnti hann á að það er ekki gáfu­legt að gera sér of al­mennar hug­myndir um aldurs­hóp, jafn­vel þó hann kunni að bera sam­eigin­leg út­lits­merki.

„Sjá má margs konar ein­faldanir og for­dóma varðandi fólk sem komið er yfir sex­tugt sem sýna að það þykir ekki sér­lega fínt að vera gamall. Þetta birtist til dæmis í því að hópnum eru oft valin já­kvæð og smjaðurs­leg nöfn á borð við úr­vals­fólk eða sex­tíu plús. Það þætti lík­lega jafn­gilda hálf­gerðri árás að tala um gamla eða aldraða,“ segir Sigurður sem bætir við aldurs­for­dómarnir séu úti um allt.

Hann nefnir dæmi af vini sínum á Face­book sem gat ekki orða bundist fyrir skemmstu þegar hann fékk sendan bækling þar sem fjallað var um þjónustu við hópinn.

„Á þremur myndanna var verið að spila á harmonikku. Hann benti á að rokk­kyn­slóðin væri nú um átt­rætt þannig að harmonikkan væri kannski ekki alveg ein­kennis­hljóð­færið. Efnið var greini­lega gert af fólki með fast­mótaðar hug­myndir um aldraða sem hafði gleymt að það er stöðug ný­liðun í gangi,“ segir Sigurður sem nefnir að for­dómarnir birtist einnig á annan hátt.

Þannig er stundum sagt að gamlir geti með engu móti lært á tölvur, en Sigurður, sem varð 66 ára á dögunum, minnir á að hann sé fæddur um svipað leyti og Ste­ve Jobs og Bill Gates. „Og ég hef notað tölvur frá þeim frá því að þær komu á markað fyrir nokkrum ára­tugum. Getur verið að það séu smá ein­faldanir í gangi?“

Aldri fylgir reynsla og viska

Sigurður viður­kennir sjálfur að aldurs­for­dómana megi mögu­lega að ein­hverju leyti rekja til hans eigin aldurs­hóps – sem var upp­reisnar­gjarn og dró visku hinna eldri í efa. Nú sé kannski tími til að að verða harð­skeytt gamal­menni og kveða niður for­dómana.

Sigurður endar pistilinn svo á þessum orðum:

„Maður á að vera stoltur af og þakk­látur fyrir að fá að eldast. Aldri fylgir bæði reynsla og viska. Meðal þess sem ég hef lært á langri og góðri ævi er að það er árangurs­ríkt og gefandi að lifa og starfa saman í fjöl­breyttum hópum þar sem jafn­vægi ríkir ekki bara varðandi kyn, litar­hátt, menntun og lífs­við­horf, heldur einnig hvað varðar aldur.“