Sigurður fékk sykursýki og varð blindur eftir afskipti Sjálfstæðisflokksins

„Lái mér hver sem vill en ég mun aldrei fylgja Sjálfstæðisflokknum,“ segir Sigurður G. Tómasson, fyrrverandi dagskrárstjóri Rásar 2.

Sigurður hefur meðal annars glímt við sykursýki og í pistli á Facebook-síðu sinni í gær segist hann hafa rifjað upp í samtali hvenær það var sem hann fékk hana.

„Það var á seinasta ári mínu sem dagskrárstjóri rásar 2. Ég var undir miklu álagi, vissi af tilraunum Sjálfstæðisflokksins til þess að losna við mig. Meðal annars var staða mín auglýst, þótt ég sæti í henni, grennslast var um það hjá samstarfsfólki hvort ekki væru hnökrar á starfi mínu sem nota mætti til til áminningar osfrv.“

Sigurður segir að á endanum hafi verið gerð tillaga um skipulagsbreytingu þar sem staða hans var lögð niður. Ekki var gert ráð fyrir að hann gegndi starfi hjá Ríkisútvarpinu eftir breytingarnar.

„Þegar ég fór svo að finna einkenni sykursýkinnar hélt ég að þetta væri bara þunglyndi vegna álagsins. Nú á dögum mundi þetta flokkast undir einelti. Í kjölfar sykursýkinnar fór ég að missa sjón og varð á endanum blindur. Ekki eru öll áhrif á heilsu mína talin. Og þess má geta að staða dagskrárstjóra rásar 2 var búin til aftur að fáum árum liðnum. Lái mér hver sem vill en ég mun aldrei fylgja Sjálfstæðisflokknum,“ segir hann.

Margir taka undir pistil Sigurðar og er einn þeirra Jón Viðar Jónsson leikhúsgagnrýnandi. Hann segir:

„Framganga Sjálfstæðisflokksins í málefnum Ríkisútvarps hefur einkennst af valdníðslu og hræsni. Öll þau ár sem ég hef þekkt til innan Útvarpsins og þau eru orðin býsna mörg; þó að ég hafi ekki starfað innan þess að heitið getur síðan 1998, hef ég fylgst ágætlega með ástandinu þar á bæ, enda hefur það ekki beinlínis farið hljótt in síðari árin. Það er mikilvægt að sögur af þessu tagi sem þú segir hér af sjálfum þér, Sigurður, að þeim sé haldið til haga fyrir síðari tíma, hvort sem þá verður eitthvert Ríkisútvarp enn til eða ekki.“

Sigurður var í athyglisverðu viðtali við DV árið 2019 þar sem hann gerði meðal annars upp tímabilið þar sem honum var bolað úr starfi dagskrárstjóra. Hægt er að lesa það hér.

Rifjaði upp áðan í samtali hvenær ég fékk sykursýkina. Það var á seinasta ári mínu sem dagskrárstjóri rásar 2. Ég var...

Posted by Sigurður G. Tómasson on Fimmtudagur, 25. febrúar 2021