Sigurður: „Er allt í lagi með þig?“ – Bólusetningin í gær endaði með ósköpum

Sigurður Þorri Gunnarsson útvarpsmaður, betur þekktur sem Siggi Gunnars, fór í bólusetningu í Laugardalshöllinni í gær. Það væri ekki í frásögur færandi nema fyrir það að Sigurður lenti í heldur leiðinlegri lífsreynslu í Höllinni.

Greint hefur verið frá því síðustu daga að liðið hafi yfir nokkra gesti Laugardalshallar sem komnir eru í bólusetningu. Sigurður er í þeim hópi en hann sagði sögu sína í Síðdegisþættinum á K100 í gær eins og fjallað er um á vef K100 á Morgunblaðinu.

Sigurður var í góðum gír áður en hann fór í bólusetninguna, enda stór dagur að fá loksins bóluefni gegn COVID-19. Veðrið úti var gott og dúndrandi tónlist í höllinni undir stjórn Dadda diskó - stemningin almennt góð sumsé. Að bólusetningu lokinni kom óvenjuleg tilfinning yfir Sigurð, einhverskonar yfirliðstilfinning sem ágerðist. Hann kvaðst muna eftir því að hafa snúið sér að manninum sem sat við hliðina á honum og sagt honum að hann héldi að það væri að líða yfir hann.

Sigurður man ekkert þar til hann vaknaði aftur, úthvíldur undir dúndrandi tónlist í Höllinni. Sagðist Sigurður hafa talið að hann væri að vakna heima hjá sér, svo vel leið honum.

„Svo opnaði ég augun og þá sé ég einhverja konu í gulu vesti með talsvöðvar og grímu bara; „Er allt í lagi með þig?“ Og ég bara; „HA? Já ég er hér.“ Svo bara hópast fólkið, örugglega komnir 6 manns eða eitthvað þar á meðal hjúkrunarkonan sem er alltaf í viðtölum. Og hún dregur niður grímuna hjá mér og segir að það sé betra að anda þannig.“

Sigurður segir að honum hafi svo verið lyft upp í hjólastól og eðli málsins samkvæmt hafi margir horft á þessa uppákomu. Svo var farið með hann á bak við þar sem hann fékk að jafna sig.

Sigurður furðaði sig á uppákomunni enda þokkalega vanur sprautum. „Þetta hlýtur bara að hafa verið spennufall. Það er svolítið yfirþyrmandi stemming þarna inni,“ sagði hann meðal annars.